31.3.2006 21:07

Föstudagur, 31. 03. 06.

Ríkisstjórn kom saman klukkan 09. 30 eins og venjulega á föstudögum, þegar þing situr. Klukkan 11.00 var þingflokksfundur sjálfstæðismanna og snerust umræður einkum um frumvarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra um nýsköpunarmiðstöð og breytingar á vísinda- og tækniráði. Ég sé ekki sömu hættur í þessu frumvarpi og sumir samflokksmenn mínir á þingi, en þingflokkurinn samþykkti framlagningu frumvarpsins, þótt skiptar skoðanir séu um efni þess. Þá eru sjálfstæðisþingmenn einnig reiðir yfir því, hvernig staðið var að kynningu frumvarpsins á opinberum vettvangi, áður en þingmönnum var kynnt efni þess.

Í dag var efnt til viðræðna um varnarmál milli sendinefnda Íslands og Bandaríkjanna og var Stefán Eiríksson, skrifstofustjóri, fulltrúi dóms- og kirkjumálaráðuneytis í íslensku nefndinni, en Albert Jónsson leiðir hana. Bandaríkjamenn sendu 26 menn til viðræðnanna, sem segir mér, að þeir hafi ekki gert upp hug sinn um það, hvernig þeir ætla að standa að framkvæmd varnarsamningsins, eftir að þoturnar eru horfnar héðan. Enda kom það fram að loknum fundunum, að þar hefðu málin verið rædd á almennum grunni en innan fárra vikna myndu Bandaríkjamenn leggja fram hugmyndir sínar um það, sem tæki við eftir brottför þotnanna.