21.3.2006 21:50

Þriðjudagur, 21. 03. 06.

Á ríkisstjórnarfundi í morgun lagði ég fram frv. til laga um landhelgisgæsluna og fer það nú fyrir þingflokka. Raunar lagði ég fram fleiri frumvörp, þar á meðal um að heimila happdrættum SÍBS og DAS að greiða út vinninga sína í reiðufé.

Var klukkan 14.00 á borgarstjórnarfundi og tók þátt í umræðum um Hlíðahverfi.

Varð að fara um 15.30 á þingund, þar sem ég flutti framsöguræður fyrir tveimur frumvörpum um tölvubrot, þar lagabreytingar vegna samnings Evrópuráðsins um cybercrime og um ný vegabréf með lífkennum.

Þá átti ég samtöl við fréttamenn RÚV um málskostnað og gjafsókn og um landhelgisgæsluna.

Mér fannst eins og fréttamenn vildu búa til einhvern ágreining milli okkar Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra um framtíð landhelgisgæslunnar. Það er fráleitt - ef starfsemi flugdeildar gæslunnar rúmast ekki á Reykjavíkurflugvelli erum við sammála um, að hún hlýtur að flytja til Keflavíkurflugvallar - við vorum einnig sammála um það frv. til laga um gæsluna, sem ég lagði fram í ríkisstjórn í morgun.

Ég lagði einnig fram bréf í ríkisstjórn í morgun um, að ég teldi mig vanhæfan til að skipa í það embætti hæstaréttardómara, sem auglýst hefur verið laust til umsóknar og mun Geir H. Haarde utanríkisráðherra væntanlega skipa í embættið.