12.3.2006 19:24

Sunnudagur, 12. 03. 06.

Fór í morgun með nágrönnum mínum í Fljótshlíðinni inn að Fljótsdal og keypti þar tvær gimbrar. Það er gott að eiga eigið fjármark.

Á leiðinni til Reykjavíkur voru þrír lögreglubílar að störfum á leiðinni frá Hvolsvelli - og ökumenn þeirra voru allir að ræða við bíleigendur við vegabrúnina, þegar ég ók framhjá þeim. Almennt sýndu ökumenn eðlilega varkárni en þó voru tveir, sem virtu hvorki hraðareglur né bann við því að aka fram úr á óbrotinni línu.

Í baráttunni fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2002 hreyktu R-listamenn sér af því, hve vel þeir hefðu staðið að rekstri Strætó og þeir ætluðu sko að halda ótrauðir áfram á sömu braut á því kjörtímabili, sem nú er að líða. Mér datt þetta í hug, þegar ég las grein í Morgunblaðinu í dag um Strætó, þar sem Pétur Gunnarsson rithöfundur segir meðal annars:

„Aðrir vilja meina að vagnarnir séu í raun auglýsingaspjöld á hjólum og gegni svipuðu hlutverki og maður sér í gömlum bíómyndum þar sem auðnuleysingjar ganga með auglýsingafleka á bak og fyrir um gangstéttar stórborganna.“

Vinstri/grænir hafa greinilega hrokkið í kút vegna þess, hve þeir mælast með lítið fylgi í Reykjavík. Hvert er svarið? Jú, það birtast persónulegar lofgreinar um Svandísi Svavarsdóttur frambjóðanda v/g í Morgunblaðinu og skrautviðtöl við hana í Birtu og helgarblaði DV. Síðan er hún vafalaust í spjallþáttum ljósvakamiðlanna eftir því, sem tækifæri gefast. En hvar er stefnan og hugsjónirnar?