17.3.2006 9:29

Föstudagur, 17. 03. 06.

Mér sýnist, að ákvörðun mín um að skrifa hvorki né tala um Baugsmálið hafi vakið eins mikið uppnám hjá sumum á Baugsmiðlunum eins og ef ég hefði sagt eitthvað, eftir að héraðsdómur birti niðurstöðu sína. Það er vandlifað. En hvernig kemst ég að þessari niðurstöðu? Jú, tilvitnun mín í Júlíus Sesar eftir Shakespeare hér á síðunni 15. mars vekur hugarangur og hugrenningar hjá blaðamönnum Baugsmiðlanna - ég hlusta ekki nóg á ljósvakamiðlana til að leggja mat á viðbrögð þeirra.

Stjórnmálablaðamaður Fréttablaðsins, Jóhann Hauksson, segir í dálki blaðins, Frá degi til dags, í dag, eftir að hafa vitnað í dagbókarfærsluna 15. mars: „Hér er þörf á túlkun táknfræðinga. Hvað er dómsmálaráðherrann að segja? Í síðara tilvikinu er líkingin augljós: Þótt varnirnar féllu, eða hertólin færu, fyrir tilverknað Bandaríkjamanna lauk ekki Íslandssögunni, hún hélt áfram. - En hvað um Baugsummælin. „Þótt sjálfur Sesar félli...“ gæti útlagst: Þótt ríkislögreglustjóri félli fyrir Baugsmönnum þennan dag, lauk ekki Íslandssögunni, hún hélt áfram.“ Langsótt er það en þó enn langsóttara hjá Björgvini G. Sigurðssyni, þingmanni Samfylkingarinnar, sem Jóhann vitnar í af velþóknun, þegar hann segir 15. mars „líklega einn svartasta dag Sjálfstæðisflokksins í mörg ár“. Enn sannast: Litlu verður Vöggur feginn.

Á blaðsíðu 2 í DV í dag er vitnað í orð mín um að varnarsamstarfið haldi áfram, þótt þoturnar fari og gefið til kynna, að brottför þeirra sé persónulegt áfall fyrir mig vegna einhverra tengsla við bandaríska ráðamenn - ég hef aldrei rætt þetta mál á þeim forsendum. Raunar er ég þeirrar skoðunar, að hagsmunir frekar en persónuleg tengsl ráði niðurstöðu ágreinings milli ríkja.

Á blaðsíðu 14 í DV í dag skrifar blaðamaðurinn Jakob Bjarnar Grétarsson og vitnar af velþóknun til sömu orða eftir Björgvin G. Sigurðsson og Jóhann Hauksson. Jakob Bjarnar segir síðan: „Ekki síst er það Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sem er í bobba en hann ætlar ekki að tjá sig um Baugsmál. Sjálfur segir Björn þó á síðu sinni að Sesar hafi verið myrtur 15. mars en...„lauk ekki sögu Rómaveldis, hún hélt áfram.“ Já, áfram allt þar til Róm brann og eru gárungarnir á því að Rut Ingólfsdóttir, kona Björns, verði fengin á fiðluna þegar það verður....“ Ætli Jakob Bjarnar líti á sig sem keppinaut  Sigurjóns Þórðarsonar, þingmanns fjrálslyndra, í drengilegri framgöngu í opinberum umræðum?

Á blaðsíðu 29 í DV í dag skrifar Sigurjón Kjartansson um fjölmiðla og vitnar í færsluna í dagbók minni 15. mars og segir síðan: „Vá! Segi ég nú bara. Er þá Sesar Baugsmálið? Og hvað er þá Róm? Maður spyr sig.“

 

Var klukkan 13.00 í Grand hóteli, þar sem þá hófst fyrsti fasteignasöludagur Félags fasteignasala. Ég flutti ávarp við upphaf fundarins og bað fundarmenn að íhuga, hvort skynsamlegt væri að flytja málefni fasteignasölu frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti til viðskiptaráðuneytis - þessi viðskipti yrðu þá þar með öðrum viðskiptum. Ég sagðist ekki skorast undan því að sinna þessum málum sem dóms- og kirkjumálaráðherra en flutningurinn kynni að falla betur að verkaskiptingu innan stjórnarráðsins.