7.3.2006 19:01

Þriðjudagur, 07. 03. 06.

Ríkisstjórnin kom til fundar klukkan 09.30 eins og vejulega á þriðjudögum en að þessu sinni sat Árni Magnússon með okkur í síðasta sinn sem félagsmálaráðherra.

Klukkan 11.00 var boðað til ríkisráðsfundar á Bessastöðum, þar var formlega gengið frá afsögn Árna Magnússonar og Jóns Kristjánssonar sem heilbrigðis- og tryggingarráðherra, áður en Jón var síðan skipaður félagsmálaráðherra. Síðan var Siv Friðleifsdóttir skipuð heilbrigðis- og tryggingarráðherra.

Allt hefur þetta gengið hratt og skipulega fyrir sig. Mér finnst skrýtið að fylgjast með því, hvað Össuri Skarphéðinssyni er mikið í mun að koma illu af stað innan Framsóknarflokksins í tilefni af þessari uppstokkun. Dálæti Össurar á Jónínu Bjartmarz á þessum tímamótum í sögu Framsóknarflokksins kemur líklega fleirum en mér í opna skjöldu.

Borgarstjórnarfundur, sem hófst klukkan 14.00 stóð innan við klukkutíma - út af dagskrá hans voru tekin tvö höfuðmál, umræður um málefni Hlíðahverfis og lóðaúthlutanir við Úlfarsfell voru teknar af dagskrá vegna fjarveru Dags B. Eggertssonar, eftir því sem mér var sagt. Eina málið til umræðu var friðarsúlan frá Yoko Ono en samþykkt var að taka málið fyrir í nefndum borgarstjórnar til að átta sig betur á öllum þáttum þess og hvar best væri að velja súlunni stað í borgarlandinu - en Viðey hefur verið nefnd þar til sögunnar.

Í umræðum um þessa súlu hafa menn varað við því að yfirvöld láti ekki stjórnast af snobbi fyrir frægum útlendingum og Ingólfi Margeirssyni rithöfundi finnst viðbrögð borgaryfirvalda hafa einkennst minnimáttarkennd.

Dagur B. Eggertsson var því miður ekki til viðræðna um lóðir við Úlfarsfell í borgarstjórn í dag - hann hefur eins og kunnugt er forðast opinberar umræður um skipbrot uppboðsstefnu R-listans vegna lóða til einstaklinga við Úlfarsfell. Dagur B. hefur á hinn bóginn talað þeim mun meira um eina lóð á þessum slóðum, það er lóðina handa Bauhaus. Dagur telur sig greinilega getað slegið pólitískar keilur með því að hampa Bauhaus - erlendu stórfyrirtæki - gagnvart BYKO. Degi finnst hitt ekki til pólitískra vinsælda að ræða lóðirnar til einstaklinga. Í báðum tilvikum situr R-listinn hins vegar undir ámæli fyrir að virða ekki góða stjórnsýsluhætti.

Bauhaus á örugglega erindi inn á íslenskan byggingarvörumarkað - en hvers vegna telja Dagur og nú stjórnendur Bauhaus sér hag af því að setja komu Bauhaus á markaðinn í þann búning, sem við blasir í fjölmiðlum?