13.3.2006 20:54

Mánudagur, 13. 03. 06.

Þingflokkur sjálfstæðismanna kom saman klukkan 13.30 eins og venjulega og þá fengum við, sem ekki höfum seti í þingsalnum og hlustað á endalausar ræður stjórnarandstæðinga um vatnalög frásögn af því, hvernig máli hafa gengið fyrir sig. Ég var þeirrar skoðunar, þegar þetta frumvarp var lagt fram, að það snerist meira um form en efni - verið væri að framkvæma tímabæra endurnýjun á vatnalögunum frá 1923, án þess að breyta efni málsins.

Eftir að stjórnarandstæðingar hafa þanið sig um málið undanfarna daga, fór ég að velta fyrir mér, hvort ég hefði misskilið málið. Á þingflokksfundinum var staðfest, að svo væri ekki, frumvarpið leiddi ekki til neinna efnisbreytinga. Þá er rangt, að halda því fram, að það breyti einhverju varðandi Kárahnjúkavirkjun, þar sem um hana gilda sérstök lög.

Rétt fyrir kvöldmat fór ég í heilsubótargöngu með útvarpið í eyrunum og hlustaði þá á viðtal við Lúðvík Bergvinsson, þingmann Samfylkingarinnar, í Speglinum. Þá áttaði ég mig á því hvers vegna vinstrisinnar tala svona mikið um þetta mál á þinginu núna: Þeir eru að minnast 90 ára afmælis Alþýðuflokksins! Þeir telja að sameiginarsinnar hafi orðið undir við setningu vatnalaganna 1923 og nú sé tímabært að ná sér niðri á talsmönnum séreignarréttarins.

Líklegt er að stjórnarandstaðan ákveði að tala í að minnsta kosti níu sólarhringa um málið - einn fyrir hvern áratug Alþýðuflokksins. Hið skrýtna er, að efni frumvarpsins breytist ekkert við þessar ræður. Og þurfi þing að sitja lengur fram á vorið vegna málsins er það aðeins í samræmi við tíðarandann, en samkvæmt honum á þing helst að sitja að störfum allan ársins hring.

Mér er hulin ráðgáta, hvernig unnt er að kalla fram ályktanir alls kyns félaga og jafnvel sjálfrar þjóðkirkjunnar vegna þessa máls.