Sunnudagur, 26. 03. 06.
Klukkan rétt fyrir 11.00 var hringt í okkur í Fljótshlíðinni og sagt, að æfing væri hafin vegna eldsumbrota í Mýrdalsjökli og hætta væri á flóði vestur yfir Markarfljót. Samkvæmt áætlun, sem okkur hafði verið kynnt, höfðum við 30 mínútur til að búast til brottfarar og halda til skráningar á stöð Rauða krossins, annað hvort í grunnskólanum á Hvolsvelli eða á Hellu. Við skildum eftir þar til gert skilti um brottför okkar frá bænum og héldum til Hellu og skráðum okkur en síðan héldum við í höfuðstöðvar Flugbjörgunarsveitarinnar, þar sem aðgerðum var stjórnað undir forystu Kjartans Þorkelssonar, sýslumanns á Hvolsvelli. Á heimleiðinni litum við inn í grunnskólann á Hvolsvelli og þar var fjöldi manns að láta skrá sig hjá starfsmönnum Rauða krossins.
Á leið til Reykjavíkur síðdegis leit ég aftur inn í stjórnstöðina en þá var æfingunni lokið og menn sáttir við árangurinn en 656 manns létu skrá sig hjá Rauða krossinum.
Í fréttum er sagt, að milli 1400 og 1500 manns hefðu komið að æfingunni Bergrisinn um helgina og er þakkarvert, hve vel þetta hefur gengið, en aldrei fyrr hefur verið efnt til sambærilegrar æfingar hér á landi.
Fréttablaðið birtir niðurstöðu í skoðanakönnun í dag, þar sem tæp 54% kjósenda í Reykjavík segjast ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórnarkosningunum í vor og fengju þeir 9 menn, um 33% Samfylkinguna sem fengi 5 og, 6,7% vinstri/græna, sem fengju 1. Þá koma frjálslyndir með rúmlega 3% og framsóknarmenn reka lestina með 3% en hvorugur fengi mann kjörinn. Framsóknarmenn koma þannig illa frá samstarfinu innan R-listans og hafa ekki haldið þeim byr, sem þeir virtust vera að fá við prófkjör sitt. Þá blasir við, að vinstri/grænir standa illa inna höfuðborgarinnar og gjalda einnig samstarfsins innan R-listans, en augljóst er, að Samfylkingin gerir tilkall til þess, að litið sé á hana sem arftaka R-listans og leitast við að gera sem minnst úr hlut samstarfsmanna sinna innan listans.