3.6.2007 22:02

Sunnudagur, 03. 06. 07.

Vladimir Putin, Rússlandsforseti, segir í viðtali við Corriere Della Sera, að Rússar kunni að beina kjarnorkueldflaugum gegn skotmörkum í Evrópu, ef Bandaríkjamenn setji upp gagneldflaugstöðvar í álfunni. Rússar hafa ekki beint eldflaugum gegn Evrópu síðan í kalda stríðinu. 

Síðastliðinn þriðjudag gerðu Rússar tilraun með langdræga kjarnorkueldflaug, RS-24, í því skyni að viðhalda hinu „strategíska jafnvægi“ í heiminum. Með henni hittu þeir skotmark í 5.500 km fjarlægð. Rússar segja flaugina hannaða með það fyrir augum, að hún komist í gegnum eldflauga-varnarkerfi.

Bandaríkjamenn vilja hafa gagneldflaugar í Póllandi og ratsjárstöð í Tékklandi til að geta varist árásum frá ríkjum á borð við Íran og Norður-Kóreu.

Þegar þeir Ronald Reagan og Mikhaíl Gorbatsjov hittust hér í Reykjavík í október 1986, hafnaði Reagan alfarið kröfu Gorbatsjovs um, að Bandaríkjamenn féllu frá áformum um varnir gegn kjarnorkuelflaugum.