26.6.2007 21:11

Þriðjudagur, 26. 06. 07.

Nýkjörin Þingvallanefnd kom saman til fyrsta fundar í dag, var ég kjörinn formaður hennar og Össur Skarphéðinsson varaformaður. Nú hefur verið fjölgað í nefndinni úr þremur þingmönnum í sjö með jafnmörgum varamönnum. Starfshættir nefndarinnar breytast í samræmi við aukinn fjölda nefndarmanna og ákváðum við á þessum fyrsta fundi að stefna að fjórum árlegum fundum.

Að loknum fundinum í húsakynnum alþingis ókum við nokkrir nefndarmenn með Sigurði K. Oddssyni þjóðgarðsverði til Þingvalla og kynntum okkur aðstæður þar og framkvæmdir á vegum þjóðgarðsins á þessu sumri. Sól var á lofti en norðanvindur þyrlaði upp þurru Sandkluftavatni fyrir norðan Þingvelli og liðu rykmekkir með Hrafnabjörgum.

Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun lagði ég fram minnisblað til upplýsinga um breytta starfshætti innan samsettu nefndarinnar svonefndu, það er ráðherranefndar Schengen-samstarfsins.