5.6.2007 22:34

Þriðjudagur, 05. 06. 07.

George W, Bush, forseti Bandaríkjanna, flutti ræðu í Prag í dag, þar sem hann sagði, að Rússar þyrftu ekki að óttast eldflaugavarnakerfi Bandaríkjanna. Rússland væri ekki óvinur Bandaríkjanna. Vinátta Bandaríkjanna við Rússland og Kína væri „flókin“. Umbætur í Rússlandi, sem á einhverju stigi virtust eiga að færa meira vald til íbúa landsins, hefðu farið út af sporinu og það leiddi til vandræða fyrir lýðræðislega þróun í landinu. Ákveðin lýðræðisleg gildi væru algild, þótt þjóðfélög þróuðust á ólíkum hraða.

Tónninn í yfirlýsingum forseta Rússlands og Bandaríkjanna sýnir, að samskipti þeirra hafa tekið nýja stefnu. Spurning er, hvort hann herðist eða mildast á fundi átta helstu iðnríkja heims, G8-ríkjanna, næstu daga.

Þetta verður síðasti G8-leiðtogarfundurinn, sem Tony Blair situr. Óvissa er um, hvort Gordon Brown, eftirmaður hans, verður eins eindreginn samstarfstarfsmaður Bush. Nicolas Sarkozy, nýr Frakklandsforseti, stendur nær Bush en forveri hans, Jacques Chirac - Sarkozy kann að fylla skarð Blairs, ef Brown hikar.