25.6.2007 21:43

Mánudagur, 25. 06. 07.

Fór síðdegis á Keflavíkurflugvöll og fylgdist með æfingum íslenskra og norskra sérsveitarmanna. Þegar rætt er um samstarf við aðrar þjóðir í öryggismálum, er nauðsynlegt að hafa í huga, að gagnkvæmt samstarf á milli þeirra, sem sinna öryggisgæslu, getum við aðeins átt við borgaralegar sveitir í nágrannalöndunum - lögreglu og landhelgisgæslu. Þegar kemur að herjum þessara landa, erum við í hlutverki gestgjafans án gagnkvæmrar þátttöku af okkar hálfu.

Íslenskir sérsveitarmenn standa erlendum starfsbræðrum sínum fyllilega á sporði. Raunar slagar fjöldi íslenskra sérsveitarmanna upp í fjölda þeirra annars staðar á Norðurlöndunum. Þar eins og annars staðar er nokkrum erfiðleikum bundið að manna sveitirnar, vegna þess hve miklar kröfur eru gerðar til þeirra, sem í þeim starfa.

Metnaður og kappsemi íslenskra lögreglumanna birtist í því, hve vel hefur tekist til við sérsveit þeirra, en hún fagnar 25 ára afmæli á þessu ári.