21.6.2007 15:57

Fimmtudagur, 21. 06. 07.

Hélt af stað frá Kólí snemma í morgun til Helsinki en sit nú á Kastrup og bíð eftir flugi til Keflavíkur.

Fróðlegt er að lesa um undirbúning leiðtogafundar ESB-ríkjanna, sem hefst í dag í Brussel. Í einhverju blaðanna sá ég, að Þjóðverjar séu að búa sig undir, að ekki takist að ná samkomulagi um breytingar á stjórnskipan ESB eða bjarga leifunum af stjórnarskrársáttmálanum, sem Frakkar og Hollendingar felldu í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir tveimur árum.

Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana, segist ætla að halda þannig á málum, að ekki þurfi að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöðuna. Tony Blair talar á sama veg fyrir sína hönd. Ef ríkisstjórnir Danmerkur og Bretlands komast hjá þjóðaratkvæðagreiðslu, verður hún líklega ekki neins staðar innan ESB. Svo virðist sem ráðamenn í ESB-ríkjunum óttist ekkert meira en að þurfa að leggja málefni tengd ESB undir kjósendur sína. Í Finnlandi sýna kannanir meira að segja, að meirihluti manna er orðinn andvígur ESB. Finnska þingið samþykkti hins vegar stjórnarskrársáttmála ESB á sínum tíma.

Það þykir fréttnæmt hér í Danmörku, að forsætisráðherrann opnaði eigin vefsíðu í gær blog.andersfogh.dk . Fyrrverandi spunameistari hans telur það til marks um, að ráðherrann sé að búa sig undir kosningar innan árs.