6.6.2007 21:59

Miðvikudagur, 06. 06. 07.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, kvaddi sér hljóðs í upphafi þingfundar, gagnrýndi kosningaáróðursblað DV og auglýsingu Jóhannesar Jónssonar kaupmanns mér til höfuðs og velti fyrir sér, hvort endurskoða þyrfti lög um fjárstuðning til stjórnmálastarfsemi af þessu tilefni. Geir H. Haarde forsætisráðherra var jákvæður í garð tillögu Guðna.

Deila Egils Helgasonar við 365 og Ara Edwalds hefur nú tekið þá stefnu, að Agli hefur verið gert ókleift að tjá sig á visir.is. Er þetta líklega í fyrsta sinn sem bloggsíða er ritskoðuð á þennan hátt. Fyrir bannfæringu hafði Egill ritað athugasemd um samskipti sín við eigendur síðunnar í pistli á henni. Eftir bannfæringu hefur Egill beðið Pétur Gunnarsson að birta fyrir sig athugasemd á síðu Péturs. Ari Edwald hefur svarað athugasemdinni með tölvupósti í athugasemdadálki síðunnar. Ari heldur því  enn fram, að Egill hafi brotið samning við sig. Egill segist aldrei hafa lent í öðru eins og hann þurfi meira að segja að leita til lögfræðings til að gæta hagsmuna sinna. Egill hafnar því að tugir milljóna séu þarna í húfi en Ari segir svo vera.

ps. eftir að ég hafði sett þetta í dagbókina barst mér eftirfarandi bréf frá Þóri Guðmundssyni, ritstjóra visir.is:

„Mig langar að leiðrétta leiðan misskilning sem uppi er um skrif Egils Helgasonar á Vísi og hefur ratað í færslu á síðu þinni í dag. Eftir að Egill sendi mér og öðrum kollegum sínum póst með fyrirsögninni "Takk fyrir og bless", og útskýrði að hann væri hættur störfum hjá 365, gaf ég fyrirmæli um að aðgangi hans inn í ritstjórnarkerfi Vísis væri lokað. Þetta er hefðbundið verklag enda óeðlilegt að fólk sem fer frá miðlinum hafi áfram aðgang að ritstjórnarkerfinu.

Ég ráðfærði mig á engan hátt við Ara Edwald við þessa ákvörðun, enda engin ástæða til. Skilningur Egils var augljóslega sá að hann væri hættur störfum hjá fyrirtækinu og þó sá skilningur væri umdeildur þá fannst mér ekki líklegt að Egill hefði áhuga á að skrifa inn á Vísi nema um það væri samið sérstaklega. Þessa ályktun byggði ég reyndar á póstum okkar í milli.

Rétt er að taka fram að skrif Egils á Vísi voru hluti af starfssamningi hans við 365. Hann fékk því borgað fyrir þau. Vefsíðan er staðsett á ritstjórnarhluta Vísis, ekki á bloggsíðum miðilsins. Aðgangur að henni er í gegnum ritstjórnarkerfið, ekki í gegnum bloggkerfið sem allur almenningur hefur aðgang að.“

pps. Egill hefur ákveðið að „heiðra“ samning við Ara en jafnframt sagt honum upp með 3ja mánaða fyrirvara.