16.3.2003

Málþing um Veru - þingslit - deilt um laganám.

 


 Málþing um Veru.


Þegar ég sagði kunningja mínum, að ég ætlaði að hlusta á málþing um Veru Hertzsch í Þjóðarbókhlöðunni laugardaginn 15. mars, lét hann orð falla á þann veg, hvort nokkru væri við vitneskju manna um þá atburði alla að bæta, hvort ekki hefði þegar verið sagt frá öllu, sem snerti Veru og Erlu Sólveigu, dóttur hennar og dr. Benjamíns H. J. Eiríkssonar. Ég sagðist ekki vita það, en komst að því á málþinginu, að þar var mikinn fróðleik enn að heyra hjá fyrirlesurunum, Arnóri Hannibalssyni, Gunnari Harðarsyni og Jóni Ólafssyni. Fjöldi manns sýndi málþinginu áhuga og varð að opna fyrirlestrasalinn í bókhlöðunni fram í anddyri hennar til að rýma áheyrendur.


 


Tölur eru á reiki um það, hve margir týndu lífi vegna óhæfuverka Leníns og Stalíns. Þær velta á tugum milljóna manna. Samdóma er, að þær nemi að minnsta kosti 20 milljónum manna. Spurning er hve margar milljónirnar eru umfram þessar 20. Arnór Hannibalsson sagði frá því, að í upphafi vinnudags hefði Yezhov, yfirmaður öryggislögreglu Stalíns, komið með nafnalista til harðstjórans. Stalín hefði síðan sest við að merkja, hver skyldu verða örlög hinna saklausu borgara á listanum. Mest hefði hann megnað að skrá  tákn um aftöku við nöfn þrjú þúsund manna á einum degi.


 


Hér ætla ég ekki að rekja hinar merku frásagnir Gunnars Harðarsonar og Jóns Ólafssonar. Er forvitnlegt að sjá, hve mikilla upplýsinga hefur verið aflað um Veru og örlög hennar. Spurningin er þó enn, við hvaða aðstæður hitti Halldór Laxness hana snemma árs 1938. Ef ákveðið var í ágúst, september 1937, að hún skyldi handtekin, hvers vegna kom lögreglan til hennar, þegar Halldór heimsótti hana snemma árs 1938? Leitinni að Erlu Sólveigu er ekki lokið og eru ýmsir þræðir óraktir.


 


Þegar brugðið er upp skjölum um fangelsun og fangavist Veru, rifjast upp vitneskjan um hina ótrúlegu nákvæmni innan fangabúðakerfis harðstjóranna, þar sem ekkert er gert, án þess að nákvæmlega sé fært til bókar. Þó dugar það ekki til að svara öllum spurningum, sum gögn týnast önnur eru eyðilögð. Fræg er leitin að Raoul Wallenberg, sem hvarf inn í Gúlagið, þegar hann var í erindagjörðum fyrir Rauða krossinn í Ungverjalandi við lok síðari heimsstyrjaldarinnar.


 


Frásögnin um Veru og Erlu Sólveigu leyfir okkur Íslendingum að gægjast inn í Gúlagið frá íslenskum sjónarhóli og auðveldar okkur að skilja brot af þeim mannlega harmleik, sem þar varð. Að fylgjast með móður og barni um þessi völdunarhús Stalíns er til þess fallið að öðlast meiri skilning en áður á grimmdinni, sem þar ríkti og leiddi til dauða tug milljónanna. Sögur um einstaklinga segja meira en tölfræðin ein.


 


Vonandi komast þeir á leiðarenda, sem leggja sig fram um að kynna sér örlög þessara tveggja kvenna. Niðurstöður þeirra eiga erindi til okkar enn þann dag í dag til að skerpa skilninginn á virðingarleysi kommúnismans fyrir manninum og lífi hans.


 


 


Þingslit.


 


Kosningaþingi var slitið 14. mars eða réttara sagt skömmum fyrir 04.00 aðfaranótt 15. mars. Stóðst þar með starfsáætlun alþingis, sem sýnir, hve tekist hefur að skapa mikla festu í þinghaldinu undir forsæti Halldórs Blöndals.


 


Eins og venjulega var mikið um að vera síðustu þingdagana, þegar mál voru að koma úr þingnefndum. Sumir virðast ætla, að afgreiðsla á þessum fjölda mála síðustu daga þingsins sé til marks um fljótaskrift. Þvert á móti segir hún okkur í flestum tilvikum, að þingnefndir hafi mál eins lengi hjá sér og þeim er fært og sendi þau ekki til annarrar umræðu, fyrr en óhjákvæmilegt er með tilliti til þingslita.


 


Stjórnarandstöðunni finnst ekki verra, að mál safnist á langa dagskrá undir þinglok, því að hún lifir jafnan í þeirri von, að geta slátrað einhverjum málum með hótun um málþóf í lokahrinunni. Í stjórnartíð Davíðs Oddssonar hafa þessir starfshættir alþingis þó gjörbreyst, því að ríkisstjórnin hefur ekki verið að leggja fram neina óska- eða forgangslista til að auðvelda stjórnarandstöðunni aftökuna.


 


Nú fengu jafnvel fleiri mál afgreiðslu en ýmsir stjórnarsinnar ætluðu að óreyndu, vegna þess að stjórnarandstaðan var alls ekki samstiga, samfylkingarmenn og vinstri/grænir áttu erfitt með að stilla saman strengina. Í lokasennunni skiptust þeir Ögmundur Jónasson, vinstri/grænn,  og Össur Skarphéðinsson, formaður (?) Samfylkingarinnar, meðal annars á köpuryrðum vegna afstöðunnar til frumvarps að nýjum hafnalögum.


 


Deilt um laganám.


 


Eins og kunnugt er hafa fleiri háskólar en Háskóli Íslands tekið að bjóða laganám. Dómsmálaráðuneytið heldur utan um réttindamál lögfræðinga og dómsmálaráðherra flutti á alþingi stjórnarfrumvarp um, að það væri ekki lengur skilyrði fyrir að verða héraðsdómslögmaður, að viðkomandi hefði lokið embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands heldur skyldi hann hafa lokið embættis- eða meistaraprófi í lögfræði frá lagadeild háskóla, sem viðurkenndur væri hér á landi samkvæmt lögum um háskóla.


 


Eftir að frumvarpið kom fram snerust forystumenn lagadeildar Háskóla Íslands og nokkrir lögfræðingar gegn því, að frumvarpið næði fram að ganga. Rök málsvara lagadeildar HÍ byggðust meðal annars á því að gera lítið úr náminu annars staðar. Sumir lögfræðingar telja líklega, að með því að leyfa nýjum skólum að útskrifa lögfræðinga sé verið að gjaldfella próf þeirra, sem hafa útskrifast frá Háskóla Íslands!


 


Deilur um þetta koma ekki á óvart. Ávallt er viðkvæmt að hrófla við gamalgrónu kerfi í menntamálum. Lagadeildin, mín gamla háskóladeild, hefur starfað í upphafinni einangrun án samkeppni innan lands og utan í meira en 90 ár.


 


Mér kom hins vegar á óvart, að þingmenn Framsóknarflokksins skyldu bregða fæti fyrir frumvarp dómsmálaráðherra. Fyrir tveimur árum var Drífa Sigfúsdóttir, varaþingmaður Framsóknarflokksins, fyrsti flutningsmaður frumvarps um breytingu á lögum um rétt manna til að kalla sig viðskiptafræðinga og var markmið þess að afnema þann einkarétt, sem nemendur úr Háskóla Íslands höfðu haft til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga. Hvatti ég sem menntamálaráðherra Drífu til að flytja frumvarpið, því að ég taldi skynsamlegt, að nemendur úr öðrum háskólum, sem bjóða sambærilegt nám í viðskiptafræðum og Háskóli Íslands, nytu sama réttar og nemendur úr Háskóla Íslands til að kalla sig viðskiptafræðinga.


 


Rann þetta frumvarp í gegnum alþingi, þótt einhverjar gagnrýnisraddir heyrðust frá mönnum í Félagi viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Stóð öll menntamálanefnd þingsins að afgreiðslu frumvarpsins og einnig að því að fella úr frumvarpinu ákvæði um, að viðskiptaráðherra skyldi ákveða lágmarkskröfur um námslengd og samsetningu prófgráðu, enda hefði slík tilhögun gengið gegn markmiðum háskólalaga um sjálfstæði skólanna til að ákveða fyrirkomulag kennslu, náms og námsmats og skipulag rannsókna.


 


Að þessu sinni lögðust framsóknarmenn undir forystu lögfræðingsins Jónínu Bjartmarz gegn frumvarpi dómsmálaráðherra í allsherjarnefnd og fékk hún meðal annars annan lögfræðing í nefndinni, Lúðvík Bergvinsson, Samfylkingunni, í lið með sér. Mynduðu þau nýjan meirihluta gegn sjálfstæðismönnunum til að hindra afgreiðslu málsins úr nefndinni.


 


Er þetta að mínu mati enn ein vísbending um hugarfar framsóknarmanna og flokkanna til vinstri við þá í garð einkarekinna háskóla og þess frjálsræðis, sem hefur skotið rótum á háskólastiginu. Að halda að ríkið sé frekar betur til þess fallið að reka góða háskóla en til dæmis banka eða flugfélag er að mínu mati misskilningur. Hins vegar er unnt að gera einkaaðilum ókleift að reka háskóla með því að setja réttindi úr námi í þeim skör lægra en ríkisrekna námið – deilan um laganámið snýst um, hvort alþingi eigi að leggja blessun sína yfir það sjónarmið.