23.6.2007 20:41

Laugardagur, 23. 06. 07.

Í dag birtist forystugrein í The New York Times undir fyrirsögninni: Where are our passports? - Hvar eru vegabréfin okkar? Minnt er á, að síðan í janúar á þessu ári verði Bandaríkjamenn að framvísa vegabréfi, þegar þeir koma fljúgandi heim frá Kanada, Mexíkó, Bermúda og öðrum karabískum eyjum. Utanríkisráðuneytið, sem annist útgáfu vegabréfa, hafi haft tvö ár til að búa sig undir þessa breytingu. Eitthvað hafi greinilega farið í handaskolum, hin venjulega sex vikna bið eftir vegabréfi sé orðin að 10 til 12 vikum og nú séu um þrjár milljónir manna á biðlistanum.

Utanríkisráðuneytið segist ekki hafa átt von á öllum þessum umsóknum, það kosti sitt að fá vegabréf 97 dollara fyrir venjulega afgreiðslu, 60 dollurum meira, ef menn óski eftir hraðafgreiðslu en hún taki tvær til þrjár vikur. Fyrirtæki, sem sérhæfi sig í hraðþjónustu á þessu sviði, taki 100 til 400 dollara fyrir að útvega mönnum vegabréf á nokkrum dögum. Fyrirtækin geta keypt sér afgreiðslutíma hjá útgefanda vegabréfanna.

Útgáfa nýrra íslenskra vegabréfa, sem uppfylla allar alþjóðlegar kröfur, hófst 23. maí 2006 og hefur hún gengið vel. Fræðast má um vegabréfin á vefsíðunni www.vegabref.is. Afgreiðslutími vegabréfa er líklega ekki neins staðar styttri en hér og dæmi eru um, að menn sæki um vegabréf að morgni og taki það í afgreiðslu í Reykjanesbæ á leiðinni út á Keflavíkurflugvöll og greiði 10.100 kr. fyrir en fyrir venjulega afgreiðslu greiða menn 5.100. Eins er víst, að vegabréfið berist í pósti daginn eftir að sótt er um það hjá sýslumanni,  þar er tekin rafræn mynd af umsækjanda, en hún er innifalin í verðinu. Hæstiréttur felldi nýlega dóm um, að þessi tilhögun á myndatöku væri heimil, en ljósmyndarar stefndu dóms- og kirkjumálaráðuneytinu til að fá þjónustunni hnekkt.

Útbreiðsla vegabréfa er meiri hér en hjá flestum þjóðum og miklu meiri en í Bandaríkjunum en í byrjun þessa árs var talið að 73% Bandaríkjamanna ættu ekki vegabréf.