15.6.2007 21:50

Föstudagur, 15. 06. 07.

Hitti fulltrúa Eurocopter með Tómasi Inga Olrich sendiherra í sendiráðinu hér í París og greindi þeim frá framvindu þyrlumála Landhelgisgæslu Íslands.

Í kvöld fórum við með sendiherrahjónunum á tónleika í Salle Pleyel, þar sem franska útvarpshljómsveitin lék. Myung-Whun Chung stjórnaði en Emanuel Ax lék einleik í píanókonsert Brahms nr. 2.

Tónkeikasalurinni hefur nýlega verið gerður upp eins svo mörg önnur menningarhús hér í París.

Kosningabaráttan fyrir seinni umferð frönsku þingkosninganna á sunnudag hefur einkum snúist um skattamál. Ríkisstjórnin skýrði frá því, að hún hefði hug á að fella félagslega skatta af fyrirtækjum og hækka frekar virðisaukaskatt til að standa undir félagslegum útgjöldum. Sósíalistar gera mikið veður út af þessu og telja sér til framdráttar, að þessi stefna stjórnarinnar hafi verið kynnt. Francois Fillon forsætisráðherra segir þetta eigi ekki að koma neinum á óvart, þetta hafi verið og sé stefna ríkisstjórnarinnar og betra sé að árétta hana í kosningabaráttunni en að vera sakaður um að koma aftan að kjósendum síðar.