22.6.2007 21:46

Föstudagur, 22. 06. 07.

Þegar þetta er skrifað að kvöldi, hefur ekki náðst samkomulag á leiðtogafundi Evrópusambandsins um framtíðarstjórnskipan þess. Fréttir herma að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hafi hótað Lech Kazcinsky, forseta Póllands, að kölluð verði saman ríkjaráðstefna til að taka ákvarðanir um hina nýju skipan, þótt Pólverjar fallist ekki á umboð þeirrar ráðstefnu og standi í vegi fyrir samkomulagi ríkjanna 27.

Einu sinni áður hefur verið kölluð saman ríkjaráðstefna án samþykkis allra, en það var árið 1988, þegar hún kom saman til að ákveða hina sameiginlegu mynt, evruna, án samþykkis Margrétar Thatcher.

Á leiðtogafundinum í Brussel var talið, að Lech Kazcinzky kynni að samþykkja málamiðlunartillögu um atkvæðaþunga einstakra ríkja í stofnunum sambandsins, en þá bárust fréttir frá Varsjá, um að tvíburabróðir hans Jaroslaw Kaczynzki, forsætisráðherra Póllands, hefði sagt í sjónvarpi, að Pólverjar hefðu gengið á vegg og það væri ekki unnt að láta endalaust undan.

Tvíburabræðurnir hafa sótt gegn Þjóðverjum af miklum þunga og nú síðast sagt, að hefði ekki verið ráðist á Pólland í síðari heimsstyrjöldinni væru íbúar landsins 50% fleiri en núna og þeir ættu ekki að gjalda þess í ósanngjörnu atkvæðavægi við ákvarðanir innan Evrópusambandsins.

ps. kl. 02.56 (04.56 í Brussel) aðfaranótt 23. júni sendi BBC frá sér tilkynningu um, að samkomulag hefði tekist á leiðtogafundinum í Brussel - Pólverjar sættust á þá niðurstöðu, að atkvæðaþungakerfið, sem þeir andmæltu, tæki ekki gildi fyrr en 2014. Lech Kazcinzky, forseti Póllands, sagðist ekki hafa þurft að gleypa neina eitraða pillu.

Samkomulagið leiðir ekki til sáttmálabreytinga hjá ESB, fyrr en það hefur verið samþykkt á ríkjaráðstefnu ESB, sem efnt verður til síðar á árinu. Sáttmálabreytingarnar taka ekki gildi, fyrr en þær hafa verið samþykktar af þjóðþingum ríkjanna 27, miðað er við gildistöku um mitt ár 2009.