2.6.2007 22:58

Laugardagur, 02. 06. 07.

Skýrt er frá því, að Egill Helgason fari með silfur sitt í sjónvarp ríkisins og verði þar einnig með bókmenntaþátt. Hann segist ekki una við aðstæður í myndveri Stöðvar 2, aðstæður séu mun betri hjá ríkinu og starfsfólk fleira, auk þess sem hann segist telja meira frelsi hjá RÚV en áður, eftir að ohf kom aftan við nafnið, áhrif stjórnmálamanna hafi minnkað og loks þekki hann Pál Magnússon útvarpsstjóra og treysti honum. Egill lauk ferli sínum á Stöð 2 með viðtali við Jóhannes Jónsson kaupmann eiganda stöðvarinnar, en Egill bar blak af auglýsingum Jóhannesar í kosningabaráttunni. Ari Edwald, forstjóri Stöðvar 2, telur Egil brjóta samning við fyrirtækið en Egill hafnar því, hann hafi unnið út umsaminn tíma.

Sama dag og Egill veitir fjölmiðlum samtöl um vistaskipti sín og ágæti RÚV birtir Blaðið viðtal við Björgu Evu Erlendsdóttur, fráfarandi þingfréttaritara hljóðvarps ríkisins, sem hefur látið af störfum á fréttastofunni eftir 17 ár. Hún sættir sig illa við að ohf hafi verið sett aftan við RÚV og gagnrýnir stjórnarhætti á fréttastofunni.