16.6.2007 13:49

Laugardagur, 16. 06. 07.

Anslem Kiefer ( f. 1945 í Þýskalandi en nú búsettur í Berjat í Frakklandi) er meðal frægustu myndlistarmanna heims og frægð hans eykst enn við stórsýninguna Sternenfall - Chute d'étoiles, Stjörnuhrap, sem opnuð var í Grand Palais í hjarta Parísar 30. maí.

Grand Palais er einstakur staður til að sýna listaverk. Eftir endurreisn hússins hefur verið ákveðið að helga hinn risavaxna sal hallarinnar einum listamanni ár hvert og bera sýningarnar samheitið Monumenta.

Anslem Kiefer er hinn fyrsti, sem sýnir þarna verk sín, Richard Serra, bandaríski myndhöggvarinn, sýnir þar 2008 og franski listamaðurinn Christian Boltanski árið 2009.

Sýningargestir eru leiddir um salinn og hin risavöxnu verk með hljóðlýsingu, þar sem heyra má listamanninn ræða um listsköpun sína auk þess flytja tvö ljóðskáld, Paul Celan og Ingeborg Bachmann, ljóð sín en tvö verkanna eru einmitt gerð undir áhrifum ljóðanna, sem lesin eru.

Í bóksölu sýningarinnar vöktu Íslendingasögur auk Snorra Eddu á frönsku athygli mína. Anslem Kiefer segir, að 60% af tíma hans til listsköpunar snúist um bækur og bókagerð. Íslenskar fornbókmenntir eru greinilega meðal þess, sem hann vill kynna í bóksölu sýningarinnar  í Grand Palais - Gísla saga Súrssonar blasti við, þegar ég borgaði bókina, sem ég keypti.

Í Morgunblaðinu 20. desember 2003 var sagt frá því, að í enskri útgáfu bókaforlagsins Guðrúnar á Snorra Eddu væru 322 myndir eftir nærri 60 listamenn og ætti Anslem Kiefer tvö verk í bókinni og mynd eftir hann prýddi forsíðu hennar - hún ber heitið Miðgarður. 

Á vefsíðu tímaritsins Mannlífs eru sögð ósannindi  um afskipti mín af skattamálum Baugsmanna - en þau eru til opinberrar rannsóknar. Nýlega var í Þjóðmálum farið ofan í saumana á sannleiksgildi orða Jóhannesar Jónssonar kaupmanns um embættisveitingar mínar. Segja má, að eftir höfðinu dansi limirnir, þegar sannleiksástin á í hlut á þessum bæ.