27.6.2007 21:19

Miðvikudagur, 27. 06. 07.

Tony Blair hvarf úr embætti forsætisráðherra Breta í dag. Hann lék á als oddi í síðasta spurningatímanum í þinginu og þingmenn stóðu á fætur og hylltu hann með lófataki, þegar hann gekk úr salnum - einstæður atburður í sögu þingsins.

Gordon Brown, hinn nýi forsætisráðherra, var þungur á brún, þegar hann flutti ávarp fyrir framan Downing stræti 10 og hét því að gera sitt besta og vinna að breytingum til batnaðar. 

Í sjónvarpsumræðum þingmanna kom fram, að Blair hefði aldrei sinnt þingmennsku af alúð, hann hefði stjórnað flokki sínum og þar með þinginu úr fjarlægð og sagt af sér þingmennsku strax við afsögn sína sem forsætisráherra. Brown mundi sýna þinginu meiri virðingu.

Tony Blair tekur nú að sér að leita að friði fyrir botni Miðjarðarhafs milli Ísraela og Palestínumanna, óvist er þó hvaða umboð hann hefur til samninga í nafni kvartettsins svonefnda: Bandaríkjanna, ESB, SÞ og Rússa.