17.6.2007 20:06

Sunnudagur, 17. 06. 07.

Úrslitin eru skýr í frönsku þingkosningunum - ríkisstjórn Nicolas Sarkozys heldur velli með góðum þingmeirihluta, þótt hann sé ekki eins mikill og spáð hafði verið. Sósíalistar náðu að nokkru vopnum sínum í vikunni milli fyrri og síðari lotu þingkosninganna. Jafnvægið er meira á þingi, en spáð var.

Alain Juppé, sem á sínum tíma var forsætisráðherra, tapaði naumlega í Bordeaux. Juppé stóð næstur forsætisráðherranum í hinni nýju ríkisstjórn en eftir tapið hefur hann ákveðið að segja af sér í fyrramálið. Umræður um kosningaúrslitin í sjónvarpi snúast að verulegu leyti um Juppé og afsögn hans.

Eins og ég get um pistli mínum í dag sæta hugmyndir ríkisstjórnarinnar um að hækka virðisaukaskattinn gagnrýni og hafa dregið úr fylgi við flokk Sarkozys.

Það er léttari brúnin á sósíalistum en verið hefur undanfarið, þegar kosningaúrslit hafa verið kynnt, þeim er greinilega létt yfir því, að flokkur þeirra galt ekki afhroð. Þeir eiga hins vegar erfiða heimavinnu fyrir höndum, því að flokkurinn logar í átökum.