4.6.2007 22:25

Mánudagur, 04. 06. 07.

Geir H. Haarde mælti á þingi í dag fyrir frumvarpi til laga um breytingu á stjórnarráðslögunum, þar sem meðal annars er gert ráð fyrir flutningi skóla frá landbúnaðarráðuneyti til menntamálaráðuneytis. Þetta er fyrir löngu tímabært. Fyrir nokkrum árum var atkvæðagreiðsla um málið á landsfundi sjálfstæðismanna og var yfirgnæfandi meirihluti fyrir því, að þessir skólar yrðu hluti af hinu almenna skólakerfi.

Hótanir Vladimirs Putins um að beina kjarnorkueldflaugum að Evrópu er ekki eina merkið um vilja rússneskra ráðmanna til að skerpa andstöðuna við Vesturlönd. Allar nýlegar fréttir af fundum vestrænna ráðamanna með Putin bera með sér kulda hans í garð viðmælenda sinna. Innan lands er öll gagnrýni á Kremlverja kæfð í fæðingu, beitt er fangelsunum og þaggað niður í fjölmiðlum. Taugastríðið milli Rússa og Eista, valdabarátta í Úkraínu eða deilur um landamæri Rússlands og Georgíu, svo að ekki sé talað um stríðið í Tsjetsjeníu eru til marks um, að næstu nágrannar Rússlands þurfa að vera á varðbergi.

Hið vinstrisinnaða breska blað The Guardian sagði í forsíðufrétt í dag, að nýtt kalt stríð væri hafið. Í kvöldfréttum BBC var fluttur kafli úr ræðu Churchills, þegar hann sagði járntjald fallið frá Stettin og suður til Trieste í Evrópu og sýnd mynd af skiptingu álfunnar eftir síðari heimsstyrljöldina og hvernig veldi kommúnista hefur minnkað frá lokum kalda stríðsins.