10.10.2008 17:47

Föstudagur, 10. 10. 08.

Ríkisstjórn kom saman klukkan 09.30 og fór yfir stöðu mála. Á fundinum skýrðist enn frekar en áður, að Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, virðist ekki hafa haft réttar upplýsingar í höndum í gær, þegar hann veittist að Íslendingum, lýsti þjóðina vera orðna gjaldþrota eða á hraðri leið þangað, og taldi réttlætanlegt að beita hryðjuverkalögum gegn íslenskum bönkum ef ekki íslenskum fyrirtækjum í Bretlandi.

Síðdegis hringdi Hollendingur og lýsti, hve illa væri talað um Ísland og Íslendinga í Hollandi. Þar væri gefið í skyn, ef ekki beinlínis sagt, að Landsbanki Íslands hefði opnað netbanka í Hollandi síðastliðið vor, fengið fólk til að leggja þar inn fé til að bæta lausafjárstöðu sína, nú kæmist enginn inn á vefsíðuna, peningarnir væru horfnir úr landi og Landsbanki Íslands horfinn auk allra starfsmanna hans í Hollandi. Þetta væri ófögur lýsing fyrir orðspor Íslands og Íslendinga og gegn henni yrði að snúast.

Í dag var tilkynnt, að fríblaðið 24 stundir hefði komið út í síðasta sinn og Fréttablaðið og Morgunblaðið hefðu runnið inn í sama útgáfufyrirtæki, Árvakur. Hvar er samkeppniseftirlit? Hér er líka stórt spurt hjá virtum álitsgjafa.

DV er ekki undir Árvakurshatti - lifir það í samkeppni við nýja risann? Sagt er að feðgarnir, sem ritstýra DV , reki það fyrir svo lítið fé, að hvorki léleg söludreifing né uppsögn áskrifta ógni fjárhagslegum styrk blaðsins. Viðskiptablaðið fékk nýtt útlit í dag. Skyldi sú upplyfting duga til að blaðið lifi, þótt Exista deyi?

Nú ættu þeir, sem voru miður sín, þegar talað var um Baugsmiðla en ekki Árvakursmiðla, að ná gleði sinni. Það kemur í ljós, hvort skírskotun til eigenda á rétt á sér eftir lestur blaðanna undir hatti Árvakurs.

Nú þarf ekki lengur að ræða um fréttastofu hljóðvarps ríkisins eða sjónvarps ríkisins, því að kynningin er í upphafi hvers fréttatíma: Fréttastofa ríkisútvarpsins - útvarp er samheiti yfir hljóðvarp og sjónvarp. Þarna eru menn ekki hræddir við að kenna sig við eigandann.