2.10.2008 22:46

Fimmtudagur, 02. 10. 08.

Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins kom saman til fundar í Valhöll klukkan 11.00 og er augljóst, hvert var helsta umræðuefni þar.

Klukkan 13.00 var ég í Von, húsi SÁÁ við Efstaleiti, og setti þar málþing um félagslegar forvarnir og gat þess í ræðu minni, að við qi gong félagar fengjum þrisvar í viku afnot af fundarsalnum til æfinga.

Klukkan 19.50 flutti Geir H. Haarde, forsætisráðherra, stefnuræðu sina og síðan voru umræður um hana til klukkan rúmlega 22.00.

Ég tek undir með Össuri Skarphéðinssyni iðnaðarráðherra, sem lýsti undrun sinni á því, hvernig Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, talaði um samning ríkisstjórnarinnar við stjórn Glitnis um kaup á hlutabréfum í bankanum og gerði hann grunsamlegan.

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, og Birkir J. Jónsson, samflokks- og samþingmaður hennar í Norðausturkjördæmi, gældu við aðild Íslands að Evrópusambandinu. Með því eru þau í senn að biðla til Samfylkingar og ögra Guðna Ágústssyni innan Framsóknarflokksins. Þeir Össur Skarphéðinsson og Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, voru einnig með hugann við Evrópusambandið í ræðum sínum.

Öllum ræðumönnum bar saman um, að sýna ætti samstöðu þvert á flokkslínur til að leiða þjóðina út úr hinum hrikalega vanda, sem ógnar fjármálakerfi landsins. Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, vill, að forystumenn stjórnmála og atvinnulífs verði lokaðir inni í Höfða og fái ekki að stíga þaðan út, fyrr en þeir senda frá sér hvítan reyk til marks um, að sameiginleg leið hafi fundist út úr vandanum.