14.10.2008 23:08

Þriðjudagur, 14. 10. 08.

Kammersveit Reykjavíkur efndi til fyrstu tónleika á vetrardagskránni í kvöld, voru þeir í Þjóðmenningarhúsinu með verkum eftir Smetana og Dvorcak, tvo Tékka, enda eru tónleikar vetrarins helgaðir tékkneskri tónlist.

Afleiðingar þess, að ríkið hefur tekið stærstu bankana þrjá til sín og tryggt innlend umsvif þeirra, eru að skýrast. Eins og við var að búast, tekur einhvern tíma að skapa traust á ný í gjaldeyrisviðskiptum.

Ég verð var við mikla reiði í garð Breta, enda var framkoma Gordons Browns í okkar garð með ólíkindum. Heima fyrir í Bretlandi er spuninn á þann veg, að hann sé með því að þjóðnýta bankana fyrirmynd annarra, meira að segja Bandaríkjamenn feti í fótspor hans. Hvað sem öðru líður er líklegt, að hann afli sér stundarvinsælda með ruddaskap í okkar garð og íhlutunarstefnu gagnvart breskum bönkum. Hve lengi þetta tvennt dugar til að fleyta honum áfram, kemur í ljós.

Í hildarleik eins og þeim, sem nú er háður í fjármálaheiminum, kemur í ljós, hverjir hafa þrek til að horfast í augu við viðfangsefni líðandi stundar og hverjir kjósa frekar að tala um eitthvað allt annað. Tal um eitthvað allt annað skilar engu en getur verið spennandi viðfangsefni, sérstaklega fyrir fjölmiðlamenn, sem forðast flókin úrlausnarefni eða hafa ekki burði til að skilja þau og skýra fyrir öðrum, sem er jú meginhlutverk fjölmiðla.

Í gær vitnaði ég hér í dagbókinni í dr. Gunna, af því að ég safna ummælum þeirra, sem brjótast undan ritstjórnarvaldi eigenda sinna. Dr. Gunni kunni ekki að meta, að ég vitnaði í orð hans (skyldi hann hafa fengið skömm í hattinn?). Hann segir í dag:

„Sjálfur Björn Bjarnason vitnar í lítlfjöllegan mig v/ játninga minna um ósýnilega sjálfsritskoðunarvaldið. Þetta finnst honum spennandi karlinum, ennþá hjakkandi í gömlum og einskisnýtum hjólförum. Þetta gefur honum kannski von um að heimurinn sé ennþá svart/hvítur en ekki í hommafánalitunum, eins og hann er.“

Ég játa, að „einskisnýt" hjólför þekki ég ekki og ekki var ég að vitna dr.-inn með fánaliti í huga heldur vegna þess, sem hann sagði. Hann hlýtur að standa við það - eða hvað?