11.10.2008 22:05

Laugardagur, 11. 10. 08.

Flokksráðs- og formannafundur Sjálfstæðisflokksins var haldinn í dag og að honum loknum hittist þingflokkur sjálfstæðismanna í Valhöll. Hér segi ég frá fundinum.

Nú skiptir mestu fyrir okkur Íslendinga, að vel sé haldið utan um eignir bankanna í höndum ríkisins. Ekki síst er mikið í húfi varðandi innlánsreikninga í IceSave í Bretlandi og Hollandi og skuldbindingar íslenska ríkisins vegna þeirra - þær munu ráðast af því, hve þungt þessi byrði leggst á okkur íslenska skattgreiðendur.

Í BBC heimssjónvarpinu var önnur frétt í kvöld, að Sir Philip Green væri að sækjast eftir eignum Baugs. Fréttamaður BBC staddur í Reykjavík sagði, að fyrir menn með góð fjárráð væri unnt að gera góð kaup á Íslandi um þessar mundir. Birt var mynd af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni í Baugi og síðan listi yfir eignir Baugs í Bretlandi, sem vektu áhuga manna á borð við Sir Philip (sem var einhvers staðar kallaður Sir Green í íslenskum fjölmiðli).

BBC sagði einnig frá viðræðum íslenskra og breskra embættismanna um, hvernig ætti að leysa deiluna um IceSave reikningana í Bretlandi.