22.10.2008 20:25

Miðvikudagur, 22. 10. 08.

Framganga Sigmars Guðmundssonar í Kastljósi í kvöld, þegar Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sat fyrir svörum hjá honum, var ekki til þess fallin að auðvelda neinum að átta sig á hinni alvarlegu stöðu þjóðarbúsins og skynsamlegustu leiðum út úr henni.

Ég hef oft áður vitnað til þess, að helsta verkefni stjórnmálamanna sé að bregðast við atburðum, eftir því sem atburðirnir eru stærri og alvarlegri þeim mun meira reynir á þá, sem leiða þjóðir. Undir forystu Geirs H. Haarde hefur ríkisstjórnin brugðist við hruni íslenska bankakerfisins með töku dramatískra ákvarðana til að forða þjóðarbúinu frá því að verða hruninu að bráð.

Nú skiptir mestu að gefa sér þann tíma sem þarf til að átta sig á stöðunni og við það hafa stjórnvöld notið samstarfs við alþjóðagjaldeyrissjóðinn, IMF, og nú fleiri erlenda sérfræðinga. Geir sagði í samtalinu við Sigmar, að þessir menn væru hér til að leggja okkur lið en ekki til að skapa ný vandamál.

Þegar fjármálakerfi riðar til falls, segir sig sjálft, að tjónið verður mest, þar sem yfirbyggingin er hæst og undirstaðan minnst eins og hér. Umsvif bankanna voru alltof mikil með hliðsjón af íslenska hagkerfinu. Nú er sagt, að þetta hefðu stjórnmálamenn og eftirlitsstofnanir átt að sjá og grípa í taumana. Hvað með alþjóðleg matsfyrirtæki? Fjölmiðlamenn? Eða bankamennina sjálfa? Árið 2006 kom alvarleg viðvörun og mönnum tókst að vinna sig úr þeim vanda, án þess að sjá nægilega að sér - síðan fór fjármálaheimurinn allur á annan endann.

Sagan verður skoðuð og kallað til ábyrgðar í samræmi við niðurstöðu þeirrar athugunar. Hún breytir hins vegar ekki nauðsyn þess, að rétt sé brugðist við núna. Undir forystu Geirs H. Haarde er það gert með samstöðu innan ríkisstjórnar.

Við upphaf bankahrunsins hér á landi var látið að því liggja, að Seðlabanki Íslands hefði spillt fyrir Glitni hf. með því að fá lán frá Bayerische Landes Bank (BLB). Nú hefur Erwin Huber, fjármálaráðherra Bæjaralands, sagt af sér, þar sem tap BLB er meira en talið var og bankinn hefur farið fram á 5,4 milljarði evra úr bankabjarglánasjóði þýska ríkisins og talið er, að BLB þurfi einn milljarð evra að auki til að styrkja eiginfjárstöðuna. BLB er fyrstur þýskra banka til að leita á náðir bankabjarglánasjóðsins. Vandræði BLB eru rakin til gjaldþrots Lehman Brothers í Bandaríkjunum.