Sunnudagur, 19. 10. 08.
Sat fyrir svörum hjá Sigmundi Erni í þætti hans Mannamáli á stöð 2 klukkan 19.10. Við ræddum stöðu mála eftir bankahrunið, rannsóknir á vegum ríkissaksóknara, stjórnarsamstarfið og Rússalánið, svo að eitthvað sé nefnt.
Sigmundur Ernir er vel undirbúinn, þegar hann tekur viðtal sem þetta. Spurningar hans eru beinskeyttar og hann virðist ekki hafa að markmiði að slá sér upp á kostnað viðmælenda sinna.
Um þessa helgi beinist athygli fjölmiðlamanna að samskiptum okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og hvaða ákvarðanir verða teknar með vísan til aðildar okkar að sjóðnum og vilja hans til að lána þeim þjóðum, sem glíma við vanda vegna bankakreppunnar.
Eins og ég vík að pistli, sem ég ritaði á vefsíðu mína í dag, er hafið ferli í átt til nýrrar alþjóðastofnunar um fjármálafyrirtæki og starfsemi þeirra. Í því efni hefur verið bent á, að til sé alþjóðastofnun um heilbrigðismál (WHO), matvæli (FAO), viðskipti (WTO) og menningarmál (UNESCO) en engin um fjármálastarfsemi. OECD, efnahags- og framfarastofnunin, hefur lítið komið við sögu í bankahremmingunum. Alþjóðabankinn (World Bank) og alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) gegna sínu hlutverki, án þess að hafa eftirlit með fjármálastofnunum. BIS, Bank of International Settlement, í Basel í Sviss er seðlabanki seðlabankanna - yfir honum hvílir einskonar dularhjúpur eins og fjármálakerfinu öllu. Alþjóðasamstarf í nýrri mynd til að auka gegnsæi og öryggi í rekstri fjármálafyrirtækja yrði til þess að endurvekja traust á þessari mikilvægu atvinnustarfsemi.