Miðvikudagur, 29.10.08.
Það er sólbjart en dálitið kaldur gustur hér í Washingon. Síðar í dag hitti ég Thad Allen, yfirmann bandarísku strandgæslunnar, og rita undir yfirlýsingu með honum um samstarf strandgæslunnar og Landhelgisgæslu Íslands. Þá ræði ég einnig við embættismenn bandaríska utanríkisráðuneytisins.
Ég sé að menn eru að æsa sig á netinu vegna greinar, sem ég ritaði í Morgunblaðið í dag um breytta stöðu í evruumræðunni eftir fall bankanna. Ég undrast enn, hver grunnt er á persónulegu skítkasti hjá þeim, sem tala eins og aðild að evrurlandi og Evrópusambandinu sé okkar eina bjargráð. Hvers vegna ræða þessir menn ekki málin á jákvæðum og málefnalegum nótum í stað þess að setja sig á háan hest og tala niður til þeirra, sem vilja viðra önnur sjónarmið? Breytir það í raun engu fyrir krónuna, að alþjóðaumsvif bankanna heyra sögunni til? Hvað með jöklabréfin? Hver verða örlög þeirra? Ef háum vöxtum var haldið uppi til að þjóna jöklabréfunum, hver er nú staðan að því leyti?
Ég hef oft áður sagt og endurtek enn, að í augum margra er engin umræða um Evrópumál, nema hún byggist á blindri ósk um aðild að Evrópusambandinu.
Þegar rætt er viðmælendur hér í Washington og hugað að hinum áratugalöngu tengslum Íslands og Bandaríkjanna, svo að ekki sé minnst á mikilvægi Bandaríkjamarkaðar, flug, ferðaþjónustu og áhuga bandarískra fyrirtækja á að fjárfesta á Íslandi, er sú spurning áleitinn, hvort Íslendingar yrðu betur settir, ef þeir yrðu að leggja lykkju á leið sína til Brussel, til að rækta samband sitt við Bandaríkin - ég tel, að svo sé ekki. Tvíhliða samskipti við Bandaríkin ber að rækta áfram án Evrópusambandsins sem milliliðs.