29.10.2008

Varnaðarorð - vegvísir

Grein í Morgunblaðinu 29. 10. 08.

Ef ég lýsi þeirri skoðun, að kanna eigi til þrautar, hvort unnt sé að semja við Evrópusambandið um evruaðild Íslands, án þess að Ísland gangi í sambandið, vekur það reiði höfundar Staksteina.

Ef ég lýsi þeirri skoðun, að nú sé ekki rétti tíminn til að hefja viðræður um aðild að Evrópusambandinu, – ekki sé unnt að smella neinum Evrópufingri til að leysa bráðavanda þjóðarinnar, hrekkur höfundur Staksteina í kút, og gefur til kynna, að ég sé veruleikafirrtur, 70% þjóðarinnar séu annarrar skoðunar.

Frá mínum bæjardyrum séð er nauðsynlegt að vera með vakandi auga á öllu, sem varðar tengsl okkar við Evrópusambandið og gæta þar hagsmuna okkar til hins ýtrasta.

Fyrir ári ritaði ég grein í tímaritið Þjóðmál um einhliða upptöku evru, án þess að andmæla þeirri leið. Fyrir fáeinum mánuðum benti ég á þá staðreynd, að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefði heimild til að semja við þriðju ríki um samstarf í gjaldeyrismálum. Þessi heimild er að sjálfsögðu enn fyrir hendi, þótt hún hafi eignast mikinn fjölda úrtölumanna hér og í Brussel.

Hvers vegna hafði ég áhuga á að reifa þessi sjónarmið? Jú, af því að mér var ljóst, að alþjóðaumsvif íslensku bankanna væru íslensku krónunni hættuleg. Það yrði að leita óvenjulegra úrræða til að bregðast við þeirri stöðu.

Óþarft er að fara mörgum orðum um gjörbreytta stöðu íslensku bankanna, frá því sem var í upphafi þessa mánaðar. Hin erlendu umsvif þeirra, sem kölluðu á evru, eru að engu orðin. Ívar Jónsson orðar þetta svo í Fréttablaðinu 28. október: „Útrásargeirinn er að mestu horfinn og um leið þörfin fyrir upptöku evrunnar. Íslendingar þurfa nú að snúa sér að því að styrkja útflutningsgreinar atvinnulífsins og tryggja að rekstrarforsendur þeirra séu ekki of sveiflukenndar. Íslenska krónan er nauðsynlegt hagstjórnartæki í þessu sambandi.“

Ég hef áður fært rök fyrir nauðsyn þess, að menn komi sér saman um ákveðinn vegvísi í Evrópuumræðunum. Tillögur mínar um það efni eru skýrar: breyta þarf stjórnarskrá og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu eða þjóðaratkvæðagreiðslna.

Lýðræðisleg skref af þessu tagi verða að sjálfsögðu ekki stigin nema fyrir liggi skýr tillaga á alþingi um, að breyta eigi stjórnarskránni. Engin slík tillaga hefur verið lögð fram. Þá þarf á stjórnmálavettvangi að ákveða, hvort þjóðin á að kjósa fyrst um, hvort sækja á um aðild, og síðan að nýju um aðildarskilmála að loknum viðræðum. Er það virkilega þetta, sem brýnast er að ræða og deila um við núverandi aðstæður?

Gagnrýni vegna hins liðna byggist einkum á því, að menn hafi ekki vandað nægilega hvert skref. Er því meginlærdómurinn ekki sá, að hlaupa nú ekki að neinu – eins og deilum um aðild að Evrópusambandinu? Það eru varnaðarorð mín, þegar ég er spurður um Evrópumál, þau orð eiga ekkert skylt við veruleikafirringu.