Miðvikudagur 08. 10. 08.
Klukkan 13.15 var ég í Háskóla Íslands og flutti fyrirlestur um Schengen-samstarfið hjá meistaranámsnemum Baldurs Þórhallssonar prófessors.
Ríkisstjórnin kom saman til fundar klukkan 15.00 til að ræða stöðu fjármálakerfisins og viðbrögð innan lands og utan við neyðarlögunum frá því á mánudag og því, sem síðan hefur gerst.
Alþjóðaviðbrögðin eru nokkuð hörð og ekki síst frá ríkisstjórn Bretlands, sem lýsti hneykslan sinni á því, að ábyrgð á greiðslum af reikningum Icesave banka Landsbanka Íslands í Bretlandi yrði ekki varpað á herðar íslenskra skattgreiðenda.
Fulltrúar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eru staddir hér á landi og hafa þeir ráðherrar, sem fara með forystu vegna vanda fjármálakerfisins, það er forsætisráðherra, fjármálaráðherra, iðnaðarráðherra og viðskiptaráðherra, rætt við þá um stöðu mála og næstu skref.
Klukkan 16.00 hófst fundur í þingflokki sjálfstæðismanna en í upphafi hans fylgdumst við með blaðamannafundi forsætisráðherra og viðskiptaráðherra í Iðnó. Blaðamannafundurinn var tvískiptur, annars vegar á íslensku og hins vegar á ensku fyrir hinn fjölmenna hóp erlendra blaðamanna, sem hingað er kominn.
Þingflokksfundurinn stóð fram yfir klukkan 19.00.
Sigurjón Árnason, bankastjóri Landsbanka Íslands, var í Kastljósi og skýrði þróun mála frá sínum bæjardyrum. Hann telur, að bakland íslensku bankanna, það er stærð gjaldeyrisvarasjóðs og innviðir Seðlabanka Íslands, hafi ekki haldist í hendur við vöxt bankakerfisins. Síðan hafi það gerst í fárviðrinu undanfarið, að vestrænar þjóðir hafi ekki lagt okkur nægilegt lið. Sigurjón sagði, að fráleitt væri í þeirri stöðu, sem nú er, væri fráleitt að hverfa frá krónunni.
Fréttir frá Evrópu sýna, að nú reynir verulega á innviði Evrópusambandsins, þegar hvert ríki leitar eigin leiða til að leysa bankakreppuna. Seðlabanki Evrópu ákveður vexti og peningamagn fyrir 320 milljón íbúa á evrusvæðinu, en hann ræður engu um það, hvernig einstök ríki ráðstafa skattfé almennings - sú ráðstöfun er á valdi einstakra ríkisstjórna og beita þær því valdi af sífellt meiri þunga til að bjarga eigin fjármála- og bankakerfi.