Miðvikudagur, 15. 10. 08.
Í dag flutti ég ræðu í umræðum á alþingi um stöðu bankanna. Á ruv.is er sagt frá henni á þennan veg:
„Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, boðaði sérstaka rannsókn á fjármálakreppunni og falli þriggja stærstu banka landsins á Alþingi í dag. Til stendur að stofna sérstakt rannsóknarembætti til að skoða kærur um meinta refsiverða verknaði sem tengjast falli bankanna.
Markmiðið er að kanna, hvort tilefni sé til lögreglurannsóknar á grundvelli laga um meðferð opinberra mála. Skýrsla mun liggja fyrir eigi síðar en í árslok 2008. Á grunni hennar verður tekin ákvörðun um saksókn.
Dómsmálaráðherra hefur fundað með ríkissaksóknara og óskað eftir því bréflega að embættið afli staðreynda um starfsemi bankanna þriggja, útibú þeirra og fyrirtækja í þeirra eigu, tilfærslu eigna, einkum á síðustu mánuðum starfseminnar. Markmiðið er að kanna hvort tilefni sé til lögreglurannsókna.
Skýrsla með niðurstöðum rannsóknarinnar á að liggja fyrir í árslok. Á grunni hennar verður tekin ákvörðun um saksókn. Ríkissaksóknari verður í samstarfi við Ríkisendurskoðun, Fjármálaeftirlitið og skattrannsóknarstjóra. Ráða þarf sérstaka starfsmenn til að vinna skýrsluna og því þarf að tryggja verkinu fjármagn, sem Björn hét á Alþingi að gera. Hann sagði jafnframt að unnið væri að lagafrumvarpi í dómsmálaráðuneytinu um umgjörð þessarar rannsóknar.
Björn segir að stofnað verið til tímabundins rannsóknarembættis sem taki við rannsókn á kærum um meinta refsiverða verknaði sem sprottnir séu af eða tengist falli bankanna. Ráðinn verði sérstakur forstöðumaður þessa embættis sem starfi í nánu samstarfi við hverja þá opinberu stofnun, innanlands eða utan, sem geti lagt lið við að upplýsa mál og greiða fyrir rannsókn þeirra. Embættið starfi undir forræði ríkissaksóknara sem, gæti ásamt forstöðumanni að ákvarða hvaða rannsóknarverkefni falli til þess, sagði Björn á Alþingi í dag.
Björn sagði mikilvægt að hrapa ekki að ályktunum, gefa sér ekki fyrirfram að lög hafi verið brotin. Hann sagði jafnframt að eðlilegt væri að velta fyrir sér að koma á fót nefnd með fulltrúum allra þingflokka sem hefði eftirlit með rannsókninni.“
Ég feitletra tvær setningar í þessari frétt, því að þær eiga ekki við rök að styðjast. Í bréfi mínu til ríkissaksóknara er ekki að finna neina ósk til hans heldur staðfesti ég, að ríkissaksóknari hafi tjáð mér, að hann ætlaði að hafa forystu um gerð skýrslu. Það þarf ekki sérstök lög til að semja þessa skýrslu, hins vegar ætla ég að leggja fram frumvarp um það, hvernig staðið verði að rannsókn á kærum um meinta refisverða verknaði, sem sprottnir séu af eða tengjast falli bankanna.