Mánudagur, 13.10.08.
Í SpiegelOnline er rætt um skjálfandi víkinga á Íslandi vegna yfirvofandi þjóðargjaldþrots og sagt meðal annars:
„Iceland's economic miracle was wrecked by a new generation of financial market jugglers who took advantage of the new spirit of optimism in the country's burgeoning financial center. The sky seemed the limit after the country's banks were privatized just 10 years ago.“
Dr. Gunni gerir upp við ýmsa viðskiptajöfra á vefsíðu sinni í dag og þar má meðal annars lesa þetta:
„Sjáiði hvað ég er kræfur? Eitt af því fjölmarga góða við hrunið er að maður er ekki lengur HRÆDDUR við þetta lið. Hvernig er hægt að vera hræddur við lið með skít upp á bak sem búið er að koma landinu á kúpuna? Auðvitað þorði maður ekki að tala hreint út eða segja eitthvað því þetta lið átti ALLT. Ég held að hvað sem fólk reyni að stinga hausnum í sandinn með að eignarhald hafi engu skipt þá sé það einfaldlega rangt. Hin ósýnilega hönd sjálfsritskoðunar hvíldi alltaf á lyklaborðinu. Allavega mínu.“
Fyrir utan að skrifa á vefsíðu sína er dr. Gunni meðal annars fastur penni á (Baugs?) Fréttablaðinu. Af ofangreindri tilvitnun má ráða, að eigendavaldið hefur haft veruleg áhrif á það, hvernig dr. Gunni lék á lyklaborðið.
Í Berlingske Tidende er í dag sagt frá því, að Dmitri Medvedev, forseti Rússlands, hafi í viðtali við Komsomol Pravda sagt, að Rússar yrðu að eignast fleiri flugvélamóðurskip - þeir eiga nú eitt, Aðmírál Kuzbetsov, og þar um borð var forsetinn, þegar hann lét þessi orð falla. Fylgdist hann með tilraunaskoti á nýrri eldflaug, sem skotið var 11.574 km frá Barentshafi til Kyrrahafs og sló þar öll fyrri met. Eldflaugaskotið var liður í æfingum Rússa til að styrkja kjarnorkuherafla sinn. Medvedev sagði, að Rússa skorti ekki fé til að smíða fleiri flugvélamóðurskip, vandinn væri skortur á nægilega stórum skipasmíðastöðvum. Forsetinn sagði, að fyrir árið 2020 yrðu einnig smíðum fleiri herskip og eldflaugakafbátar.