Laugardagur, 18. 10. 08.
Klukkan 16.00 hélt Antonin Scalia, hæstaréttardómari frá Bandaríkjunum, fyrirlestur á hátíðarmálþingi Háskóla Íslands í hátíðarsal skólans í tilefni af 100 ára afmæli lagakennslu. Salurinn var þéttsetinn og gerður góður rómur að máli Scalia, enda er hann einstakur fyrirlesari.
Scalia er eindreginn talsmaður þess, að dómarar haldi sig við bókstaf laganna í dómum en fari ekki inn á svið löggjafans. Að hans mati er þróunin til þeirrar áttar og nefndi hann til marks um það bæði dóma frá Bandaríkjunum og mannréttindadómstóli Evrópu í Strassborg. Segir hann, að með vísan til mannréttinda telji dómarar sig geta gengið mun lengra en góðu hófi gegni í niðurstöðum sínum. Það sé ekki þeirra hlutverk að setja lög heldur kjörinna fulltrúa á þjóðþingum.