25.10.2008 19:31

Laugardagur, 25.10.08.

Klukkan 10.00 var ég í Grensáskirkju, þar sem kirkjuþing var sett við sérstaklega hátíðlega athöfn, enda var minnst 50 ára afmæli þess. Var ég meðal þeirra, sem fluttu ávörp og hér má lesa framlag mitt.

Fleirum en mér hefur þótt skrýtið að sjá Jón Baldvin Hannibalsson flytja æsingaávarp á tröppum ráðherrabústaðarins í dag en um það fjalla ég meðal annars í pistli, sem ég setti á vefsíðu mína. Hér er nákvæmasta lýsingin á mótmælafundinum við ráðherrabústaðinn.

es. Egill Helgason virðist túlka pistil minn þannig að ég sé með spuna gegn EES-samningnum útaf IceSave-reikningum, af því að ég segi Jón Baldvin hafa hreykt sér af því að hafa breytt Íslandi í frelsisátt með því að draga okkur sjálfstæðismenn til stuðnings við hann. Ég tek undir með þeim, sem telja þetta í besta falli langsótt hjá Agli ef ekki ofurviðkvæmni fyrir öllu, sem varðar samskipti við Evrópusambandið.

Hitt er of snemmt að segja, hvernig Evrulandið kemur frá bankakreppunni - veikleiki þess felst í því, að ekkert fjárveitingavald tengist seðlabanka Evrópu og erfitt er að stilla saman ákvarðanir hans og gífurlegt fjárstreymi úr ríkissjóðum einstakra Evrulanda til að halda eigin bönkum á floti. Líklegt er, að öll Maastricht-skilyrði, sem áttu að koma í stað sameiginlegs fjárveitingavalds, fjúki út í veður og vind í þessu fárviðri í fjármálaheiminum. Hvað gera evrubændur þá?