Þriðjudagur, 21.10.08.
Ríkisstjórnin kom saman í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í morgun, en þar höfum við hist til fundar oftar en áður síðustu daga. Aðstaða til ríkisstjórnafunda er góð í húsinu, herbergið bjart og hlýlegt. Þar sem fundað er, var á sínum tíma svefnherbergií. Í stofunni á neðri hæðinni hefur verið gerð aðstaða til að efna til funda með fréttamönnum, en þeir bíða gjarnan fyrir utan bústaðinn og sitja fyrir ráðherrum, þegar þeir koma út. Í bjartviðrinu og kaldri stillunni í dag hafði þeim verið borið kaffi út á stétt.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sat þennan fund ríkisstjórnarinnar, en hún kom til landsins frá New York laugardaginn 18. október eftir nokkurra vikna dvöl ytra. Eftir aðsvif á fundi í tengslum við framboð Íslands í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna gekk hún undir uppskurð vegna æxlis í höfði. Er fagnaðarefni, hve vel aðgerðin heppnaðist og Ingibjörg Sólrún hafi snúið að nýju til starfa.
Síðdegis hittist þingflokkur sjálfstæðismanna á fundi í alþingishúsinu og ræddi stöðu mála á löngum fundi. Mikil samstaða er meðal þingmanna flokksins til allra meginmála miðað við stöðu þeirra, eins og hún var kynnt á fundinum.