4.10.2008 20:06

Laugardagur, 04. 10. 08.

Jafnt í Reykjavík sem París komu menn saman í dag til að ræða aðgerðir vegna hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu. Eftir að Bandaríkjaþing ákvað að verja mætti 700 milljörðum dollara til að tryggja bandaríska fjármálakerfið, er talið líklegt, að aukin festa hafi skapast.

Í Reykjavík hittust ráðherrar, verkalýðsforingjar, atvinnurekendur og bankastjórar. Leitað var leiða til að mynda víðtæka samstöðu um leið til að tryggja stöðu íslenska fjármálakerfisins.

Í París hittust forseti Frakklands, kanslari Þýskalands og forsætisráðherrar Bretlands og Ítalíu auk seðlabankastjóra Evrópu og forsætisráðherra Lúxemborgar, en hann tók þátt í fundinum sem talsmaður fjármálaráðherra 27 ESB-ríkja. Tilgangur fundarins var að ákveða, hvaða úrræði myndi best duga til að treysta evrópska fjármálakerfið.

Fjármálaráðherra Finnlands sagðist sætta sig illa við, að þessi hópur mann tæki ákvarðanir fyrir öll ESB-ríki um þessi efni.

Helstu fréttir fjölmiðla af fundinum í Reykjavík voru þess efnis, að sett yrði það skilyrði fyrir sameiginlegu átaki fyrir íslenska fjármálakerfið, að Íslendingar óskuðu eftir aðild að Evrópusambandinu - það er þeir yrðu í sömu stöðu og ESB-þjóðirnar, sem biðu í dag eftir niðurstöðunni í París.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði í sjónvarpsfréttum RÚV, að þessar fréttir um ESB-skilyrðið ættu ekki við rök að styðjast. Fundirnir í dag hefðu alls ekki snúist um það mál. Morgunblaðið er þó með forsíðufrétt um þetta sunnudaginn 4. október!