20.10.2008 20:04

Mánudagur, 20. 10. 08.

Ég hef sett inn á síðuna útskrift af samtali okkar Sigmundar Ernis Rúnarssonar á Stöð 2 í gærkvöldi.

Í The New York Times birtist í dag leiðari undir fyrirsögninni Collateral Damage, þar er fjallað um hið afleidda og sameiginlega tjón, sem orðið hefur, vegna þess að ríkustu þjóðir heims, sem hafa verið trilljónum dollara til að bjarga eigin fjármálakerfum. hafa ekki varið milljörðum dollara til að bjarga fátækari þjóðum, sem ollu ekki vandræðunum en urðu engu að síður fórnalömb þeirra.

Bent er á, að lönd í Mið- og Austur-Evrópu, þar sem vestrænir bankar ráði mestu í fjármálalífinu, séu sérstaklega illa sett. Úkraína hafi beðið Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um 14 milljarða dollara og Ungverjaland hafi fengið 5 milljarði dollara frá sjóðnum.

Eftir að hafa rakið vanda ýmissa þróunarþjóða, segir leiðarahöfundurinn og nú birti ég enska textann:

„The world's richest countries have exhibited enormous myopia (skammsýni) throughout the crisis - originally scurrying for ad hoc individual "solutions" that worsened the collective mess. Less than two weeks ago, Washingon and Brussels allowed Iceland to go bust.“

Ég hef notað orðið skammsýni um ákvarðanir Bandaríkjastjórnar í varnar- og öryggismálum hér á N-Atlantshafi. Nú notar The New York Times það orð um stefnu stjórnvalda í Washington og Evrópusambandsins í Brussel gagnvart Íslandi, sem hafi verið „leyft“ að fara á hausinn!