Fimmtudagur, 09. 10. 08.
Þingflokkur sjálfstæðismanna kom tvisvar saman til fundar í dag, í hádeginu og síðan að nýju 16.30. Rætt var um framvindu mála og hver ættu að viðbrögð við henni auk þess sem lagt var á ráðin um næstu skref og aðgerðir. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, nýtur óskoraðs trausts þingflokksins við úrlausn hinna gífurlega erfiðu viðfangsefna.
Í atburðarás af þessum toga er erfitt að sjá fyrir, hvað þykir fréttnæmast. Í dag var það afstaða bresku ríkisstjórnarinnar til hinnar íslensku vegna þess, sem Bretar telja óviðunandi framgöngu íslenskra stjórnvalda og banka gagnvart reikningseigendum í Bretlandi.
Í ljós hefur komið, að sveitarstjórnir um allar Bretlandseyjar hafa lagt fé inn í íslenska banka og þær sæta nú mikilli gagnrýni fyrir að fara svo óvarlega með fé skattgreiðenda. Gordon Brown, forsætisráðherra, leitast við að varpa ábyrgðinni á herðar íslenskra stjórnvalda á sama tíma og hann hallmælir íslensku bönkunum. Bresk stjórnvöld hafa gengið á eignir þeirra í Bretlandi og þar á meðal banka í eigu Kaupþings.
Hér á landi er sagt, að upptaka breska fjármálaeftirlitsins á banka Kaupþings hafi riðið Kaupþingi að fullu og Sigurður Einarsson, fráfarandi stjórnarformaður Kaupþings, rakti ákvörðun Breta til orða, sem Davíð Oddsson lét falla í Kastljósi að kvöldi þriðjudags 7. október, eins og sjá má á forsíðu Morgunblaðsins í dag.
Þegar leið á daginn var harka breskra stjórnvalda rakin til „misskilnings“ í samtali Árna M. Mathiesens, fjármálaráðherra, við Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, að morgni þriðjudagsins 7. október, það er áður en Davíð ræddi við Sigmar Guðmundsson í Kastljósi.
Geir H. Haarde ræddi við Darling í síma í dag og taldi sig hafa komið málinu í sæmilegt, diplómatískt horf, en um svipað leyti fer Gordon Brown fram með ódiplómatískri hörku gagnvart Íslendingum í Sky sjónvarpsstöðinni. Geir hefur skýrt þetta sem sambandsleysi innan bresku ríkisstjórnarinnar.
Geir mótmælti því harðlega í hádeginu, að Bretar hefðu beitt hryðjuverkalöggjöf til að hrifsa eigur íslensku bankanna. Brown var kannski að svara þeim ummælum á Sky en líklega var hann frekar að beina athygli að Íslendingum til að létta þrýstingi af sér og bresku ríkisstjórninni, enda hefur hún mikið á sinni könnu vegna vandræða breskra banka.
Í sögulegu ljósi verður þessi flétta í allri þessari dramatísku atburðarás ekki talinn til þess mikilvægasta, sem gerist hjá okkur á líðandi stundu - samskipti Bretlands og Íslands hafa tekið margar dýfur í aldanna rás. Hitt held ég, að komi öllum stjórnmálamönnum á óvart í Bretlandi og hér á landi, hve vel íslensku bankarnir höfðu komið ár sinni fyrir borð í Bretlandi. Að láta sér til hugar koma, að öll þau viðskipti hafi verið á ábyrgð íslenskra skattgreiðenda, er í raun ótrúleg bíræfni.
Hér má sjá, hvaða augum þaulreyndir fréttaskýrendur líta á tilboð Rússa um stórt gjaldeyrislán til okkar. Fréttin um það kom á óvart sl. þriðjudag.
Fréttaskýrandi The Times telur bandamenn okkar hafa sýnt mikla stórpólitíska skammsýni með því að hlaupa ekki undir bagga með íslensku bönkunum - ætli breska stjórnin sjái ekki eftir því nú að hafa ekki gert það. Hitt er síðan einkennilegt að snúast gegn íslenskum bönkum eins og um hryðjuverkamenn sé að ræða. Var það kannski vegna mats af því tagi, sem svo erfitt var að kalla fram aðstoð í Evrópu og Bandaríkjunum?
Í Kastljósi kvöldsins ræddi Sigmar Guðmundsson við Steingrím J. Sigfússon, formann vinstri/grænna, og birtist frásögn af því samtali á visir.is, Þar segir:
„Steingrímur J. Sigfússon formaður vinstri grænna segir að ef menn telji að ráðamenn þjóðairnnar hafi glatað trausti eigi að skipta um allt „settið"
„Þessir aðilar eru allir samábyrgir og það er ekki hægt að tína einn út úr og gera að alsherjarsökudólgi," sagði Steingrímur.
Hann sagði þá þurfa að skipta um yfirmenn fjármálaeftirlitsins, bankastjóra seðlabankans og ríkisstjórn.
Steingrímur sagði ríkisstjórnina ekki hafa náð að stjórna þessu verki nógu farsællega og menn hefðu látið ummæli falla sem þeir hefðu betur átt að sleppa.
„Viðskiptaráðherra er t.d að lenda í ýmsum vandræðum vegna ýmissa ummæla sem varða starfsmenn Landsbankans. Við verðum að passa okkur á því að menn missi ekki út úr sér yfirlýsingar sem þessar."“
Þessu til viðbótar taldi Steingrímur J., að við fyrsta tækifæri ætti að draga stjórnmálamenn til ábyrgðar með því að ganga til kosninga, hann sagði einnig frá því, að hann hefði nefnt þjóðstjórn við Geir H. Haarde, þegar þeir hittust eftir heimkomu Steingríms J. frá Strassborg, en Steingrímur J. var ekki í seðlabankanum að kvöldi sunnudagsins 5. október, þegar ráðgast var við stjórnarandstöðu um örlög Glitnis. Þar var Katrín Jakobsdóttir, varaformaður flokksins, og stóð með öðrum að því, sem þar var gert.
Af orðum Steingríms J. mátti ráða, að hann væri í sjálfu sér sammála öllu, sem gert hefði verið og vildi samstöðu þjóðarinnar sem mesta en samt gat hann ekki setið á sér eins og frásögnin á visir.is sýnir og látið hjá líða að veitast að þeim, sem hafa staðið í fremstu víglínu síðustu sólarhinga og barist við að bjarga því, sem bjargað verður í þessum hamförum. Hafi markmið Steingríms J. verið að efla samstöðu þjóðarinnar með þessari framgöngu sinni, geta honum verið ákaflega mislagðar hendur. Fer honum illa að veitast að öðrum fyrir það, sem hann álítur óvarlegt tal þeirra og ganga síðan í vatnið sjálfur.
Að heyra Steingrím J. sífellt með kröfu um pólitískt uppgjör á vörunum er dálítið nýstárlegt fyrir okkur, sem höfum sætt aðkasti hans og annarra sósíalista fyrir að hvetja þá til uppgjörs við stuðninginn við kommúnismann og kommúnistaríkin.