Fimmtudagur, 30.10.08.
Í morgun flutti ég fyrirlestur á málþingi Center for Strategic and International Studies (CSIS) hér í Washington DC en málþingið er haldið undir heitinu: Transatlantic Energy Forum og flutti ég fyrirlesturinn undir dagskrárliðnum: The Melting Arctic: Competition or Cooperation? Sherri Goodman, ráðgjafi hjá Center for Naval Analysis (CNA), kynnti bandarísk sjónarmið um þetta málefni.
Athygli á auðlindanýtingu og siglingum á og við Norðurheimskautið vex jafnt og þétt. Þess er beðið, að forseti Bandaríkjanna kynni nýja heimskautastefnu en sú, sem nú er fylgt, er löngu úrelt. Er talið hugsanlegt að þessi stefna verði kynnt fyrir forsetaskiptin í janúar 2009.
Scott Borgerson, frá Council on Foreign Relations, flutti einnig erindi á málþinginu, en hann hefur hvatt eindregið til þess að Bandaríkjastjórn láti meira að sér kveða við Norðurheimskautið og ritaði um það grein í Foreign Affairs, fyrr á árinu, eins og ég hef sagt frá hér á síðunni.
Hinn 9. október sl. samþykkti þing Evrópusambandsins með 597 atkvæðum gegn 23 en 41 sat hjá, að skora á framkvæmdastjórn ESB að tryggja sér sæti áheyrnarfulltrúa hjá Norðurheimskautsráðinu. Framkvæmdatjórnin birtir líklega fyrir áramót stefnu í sína í heimskautamálum. Erfitt er að sjá rök fyrir því, að ESB eigi erindi inn á Norðurheimskautið.
Það liggur í loftinu hér í Washington, að Barack Obama verði næsti forseti Bandaríkjanna og greinilegt er, að ýmsir, sem nú starfa hjá hugveitum á borð við CSIS og CNA, eru að búa sig undir að komast til starfa hjá nýjum forseta og ríkisstjórn.
Það bendir ekki til þess, að áhuginn á, að Ísland verði tafarlaust aðili að Evrópusambandinu, risti djúpt, þegar ný Gallup-könnun sýnir vinstri/græn bæta við sig mestu fylgi og Samfylkinguna dala. Sjálfstæðisflokkurinn lendir í þriðja sæti í könnuninni og verður Kolbrúnu Bergþórsdóttur og fleirum þar með að þeirri ósk sinni, að flokknum sé refsað fyrir hrun fjármálakerfisins.
Pólitíska staðan er flókin og verður spennandi að vinna úr henni. Ég tel til dæmis nauðsynlegt að ræða utanríkismál af meiri þunga og alvöru en gert hefur verið undanfarin ár, þegar allt hefur verið einfaldað í kringum útrás og ESB, ekki-ESB.
Deilt er um of mikinn hlut RÚV á auglýsingamarkaði. Hvað með hugmyndamarkaðinn? Til dæmis Evrópusambandssinnana Hallgrím Thorsteinsson og Egil Helgason? Hvað segir Páll Magnússon um þá?