Fimmtudagur, 23. 10. 08.
Nú hefur samtal þeirra Árna M. Mathiesens, fjármálaráðherra, og Alistair Darlings, fjármálaráðherra Breta, í síma að morgni þriðjudagsins 7. október sl. verið birt, bæði í Kastljósi og á mbl.is.
Það var tímabær ráðstöfun að birta þetta samtal opinberlega og á íslensku, svo að allri þjóðinni mætti verða ljóst, hvað fór á milli fjármálaráðherranna. Að sjálfsögðu er ekkert í þessu samtali, sem gaf bresku ríkisstjórninni tilefni til hinna harkalegu aðgerða, sem hún greip til gagnvart íslenskum fyrirtækjum í Bretlandi.
Þá er einnig með ólíkindum, hvernig Darling kaus að túlka þetta samtal í útvarpsviðtali í Bretlandi að morgni miðvikudags 8. október.
Óvildarorð í garð Árna vegna þessa samtals eiga engan rétt á sér, nema menn vilji afflytja það, sem hann sagði í annarlegum tilgangi. Raunar er erfitt að sjá, hvaða öðrum tilgangi það þjónar en að spilla stöðu Íslands í hinni alvarlegu deilu við Bretland um IceSave-reikningana.
Alistair Darling hringdi, þegar ríksstjórn sat á fundi í stjórnarráðshúsinu, og gekk Árni út af fundinum til samtalsins og skýrði okkur meðráðherrum sínum frá orðaskiptum, strax að þeim loknum. Ekki hvarflaði að neinum okkar, að þarna hefðu fallið orð, sem yrðu bresku ríkisstjórninni tilefni til að setja íslensk fyrirtæki á hryðjuverkalista.