Mánudagur, 27.10.08.
Við Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, vorum viðmælendur Jóhönnu Vilhjálmsdóttur í Kastljósi í kvöld. Umræðurnar voru dálítið skrýtnar að því leyti, að undir okkur voru bornar deilur Björgólfs Thors Björgólfssonar og Seðlabanka Íslands, sem eiga rætur að rekja til samtals við Björgólf Thor, sem verið var að flytja í Kompási Stöðvar 2 og við Guðni sátum í Kastljósi. Að vísu hafði hluti Kompáss verið fluttur áður og þar kom fram, að hefði Landsbanki Íslands (LÍ) fengið 200 milljón punda fyrirgreiðslu í seðlabankanum fyrir hádegi mánudaginn 6. október, hefði það komið í veg fyrir, að ábyrgðir vegna IceSave reikninga féllu á Íslendinga vegna þess, að fjármunirnir hefðu tryggt flýtiafgreiðslu breska fjármálaeftirlitsins á því, að IceSave yrði sjálfstæð eining en ekki hluti LÍ.. Seðlabankinn hefur sagt, að LÍ hafi óskað eftir „fyrirgreiðslu að fjárhæð 200 milljónir punda frá Seðlabanka Íslands vegna útstreymis sem orðið hefði í útibúi þeirra í Bretlandi auk 53 milljóna punda láns vegna dótturfélags Landsbankans í Lundúnum.“ Hins vegar hafi ekki verið minnst á flýtiafgreiðslu breska fjármálareftirlitsins í þessu samhengi. Björgólfur Thor hefur mótmælt þessari yfirlýsingu seðlabankans.
Í Kastljósinu benti ég á, að ekki væri deilt um, að LÍ hefði farið fram á 200 milljónir punda, hitt væri ágreiningsefni, hvort vitað hefði verið, að fyrirgreiðslan myndi greiða fyrir málum vegna IceSave hjá breska fjármálaeftirlitinu. Ég hefði ekki neina vitneskju um það og gæti því ekki tekið aftsöðu til þess þáttar. Vorum við Guðni sammála um nauðsyn óhlutdrægrar úttektar með aðkomu erlendra aðila. Þegar ég benti á, að slík úttekt kynni að kosta hundruð milljóna, sagði Guðni, að ekki ætti að hugsa um kostnað í þessu sambandi og samsinnti ég því.
Oftar en einu sinni hef ég vakið máls á því hér á síðunni, að ég var ósammála þeirri ákvörðun Matthíasar Johannessens ritstjóra Morgunblaðsins, að efna ekki til uppgjörs við kommúnista og kommúnismann á síðum blaðsins. Matthías vildi sýna þeim blíðu, sem áttu um sárt að binda og ekki setja salt í sár þeirra.
Nú ganga ýmsir fram fyrir skjöldu og lýsa andaslitrum stjórnmálastefnu, sem kennd er við ný-frjálshyggju eða frjálshyggju. Þá er öldin önnur á Morgunblaðinu og krafist uppgjörs við allt og alla, meðal annars Björgólf Guðmundsson, sem hefur lagt drjúgan fjárhagslegan skerf af mörkum til blaðsins undanfarin misseri og líklega gert meira en nokkur annar einstaklingur til að halda því úti. Stjörnublaðamaðurinn Kolbrún Bergþórsdóttir hefur auk þess fundið sökudólg til taka út alla refsinguna: Sjálfstæðisflokkinn.
Þegar Morgunblaðið kaus að efna ekki til uppgjörs við kommúnismann, hætti útgáfa Þjóðviljans. Hvernig skyldi Morgunblaðinu vegna á uppgjörstíma samtímans?