Föstudagur, 09. 11. 07.
Nú eru 18 ár síðan Berlínarmúrinn féll. Ég man enn, hvar ég var, þegar þessi tíðindi gerðust, en ég var á ferjuferð milli Finnlands og Svíþjóðar og skrifaði grein fyrir Morgunblaðið um atburðinn, enda sá ég um erlendar fréttir á blaðinu á þeim tíma.
Nú er ég enn á ný í Stokkhólmi og eins og svo oft áður er erindið að ræða um öryggismál.
Ársfundur Sænsku Atlantshafssamtakanna var haldinn í dag og var ég þar meðal ræðumanna ásamt Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóra NATO, Steen Tolgfors, varnarmálaráðherra Svía, og John Vinocur, sem nú er dálkahöfundur The New York Times, búsettur í París, þar sem hann var áður ritstjóri The International Herald Tribune, en dálkur hans birtist í blaðinu á þriðjudögum.
Ég ræddi um sama efni og ég gerði í Tromsö og síðan í Kaupmannahöfn en hvert erindi hefur sinn sérstaka svip. Að þessu sinni nálgaðist ég viðfangsefnið úr annarri átt en áður. Allt ber þó að sama brunni: Geopólitískar aðstæður á N-Atlantshafi eru að breytast á þann veg, að NATO verður að endurskoða stefnu sína og áréttaði framkvæmdastjóri NATO það á fundinum meðal annars með vísan til nýlegra viðræðna sinna við Geir H. Haarde í tengslum við þingmannafund NATO á Íslandi.
Hér er Stokkhólmserindi mitt.