12.11.2007 22:17

Mánudagur, 12. 11. 07.

Furðulegt var að lesa forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag um frumvarp mitt til nýrra laga um almannavarnir, þar sem brunamálastjóri og slökkviliðsstjórinn á höfuðborgarsvæðinu gagnrýna það á algjörlega röngum forsendum og segja, að það miðist við afleiðingar kjarnorkustríðs! Það mátti segja um almannavarnalögin, sem samþykkt voru í upphafi sjöunda áratugs síðustu aldar og gilda að meginstofni enn, enda var Ágúst Valfells, kjarneðlisfræðingur, ráðinn fyrsti forstöðumaður almannavarna.

Að vísa til kjarnorkustríðs vegna þess að ríkislögreglustjóri heldur utan um skipulag almannavarna er heldur síðborin athugasemd, því að ríkislögreglustjóra var falið þetta verkefni árið 2003!

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, vill greinilega halda lögreglu sem lengst frá almannavörnum. Engin rök eru fyrir því. Við gerð frumvarpsins ræddi ég þessi mál oftar en einu sinni við Jón Viðar

Lögregla. björgunarsveitir, slökkvilið og heilbrigðiskerfið eru burðarásar almannavarnakerfisins og sveitarfélögin gegna þar lykil hlutverki. Almannavarnafrumvarpið mótar rammann utan um hlutverk þessara aðila en viðbragðsáætlanir eiga að segja fyrir um, hvernig tekið er á einstökum atvikum.

Einhliða fréttaflutning af þessu tagi og forsíðufrétt, þar sem flaggað er skoðunum, sem ekki eiga við nein rök að styðjast, hlýtur að mega flokka undir mistök hjá Fréttablaðinu. Spurning vaknar um, hvort blaðamaðurinn hafi ekki einu sinni haft fyrir að lesa frumvarpið sjálfur, áður en hann skrifaði fréttina. Viðmælendur hans eru að minnsta kosti að ræða eitthvað annað en frumvarpið.