27.11.2007 18:07

Þriðjudagur, 27. 11. 07.

Fór fyrir hádegi í heimsókn í stöð bandarísku strandgæslunnar í Boston. Ég hitti Rear Admiral Sullivan, yfirmann stöðvarinnar, sigldi síðan um höfnina og fór í stjórnstöð stöðvarinnar. Þar var meðal annars kynnt, hvernig tekið er á móti gasflutningaskipum, LNG-skipum, í höfninni. Mikillar varúðar er gætt, enda sigla skipin með farm sinn inn í Boston-borg. Þau koma á fimm til sjö daga fresti með gas frá Trinidad/Tobago.

Hinn 20. október hófust slíkir gasflutningar frá gasstöð fyrir norðan Hammerfest í Noregi, frá eyju, sem breytt hefur verið í safn- og útflutningshöfn, safnað er neðansjávar gasi úr holum á hafsbotni. Þaðan er áætlað að flytja um 70 farma á ári til Spánar eða Bandaríkjanna. Farmur hvers skips nægir til að sjá 45.000 manna borg fyrir orku í eitt ár.

Ef einhver truflun verður á gasflutningum til Boston, leiðir það fljótt til orkuskorts á svæðinu og má því kalla gasskipin lífæð borgarinnar.

Ég hvatti til aukinnar samvinnu Landhelgisgæslu Íslands og bandarísku strandgæslunnar. Hér í Boston þekkja strandgæslumenn vel til þess, sem landhelgisgæslan gerir og landhelgisgæslumenn hafa verið hér á ferð til skrafs og ráðagerða.