28.11.2007 21:38

Miðvikudagur, 28. 11. 07.

Við lentum á Keflavíkurflugvelli kl. 06.10 í morgun eftir rúmlega fjögurra tíma flug frá Boston, við vorum hins vegar tæpa sex tíma á leiðinni þangað. Háloftastraumar ráða miklu um hraða vélanna.

Síðdegis hitti ég sendinefnd frá Svíþjóð, sem kom hingað til að ræða varnar- og öryggismál og kynnti sér meðal annars starfsemi í björgunarmiðstöðinni við Skógarhlíð. Sænska varnarmálaráðuneytið fer með almannavarnir þar í landi og er gagnkvæmur áhugi að efla samstarf milli ríkjanna á þessu sviði.

Rúmlega 18.00 svaraði ég fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar á alþingi um aðgerðir til að efla öryggi í netheimum, ekki síst öryggi barna. Lýsti ég nýjum lögum um þetta efni og aðgerðum lögreglu í samstarfi við Barnaheill og netþjónustufyrirtæki.

Við heimkomuna heyrði ég um þá niðurstöðu í lífskjaramati Sameinuðu þjóðanna, þar sem litið er til 177 landa, að Ísland hefði nú náð efsta sæti. Þetta er glæsilegur árangur af 16 ára stjórnarforystu Sjálfstæðisflokksins. Lagt er mat á alla þætti, sem ráða lífskjörum manna.