5.11.2007 21:30

Mánudagur, 05. 11. 07.

Bónusfeðgar Jóhannes og Jón Ásgeir rita grein í blað sitt Fréttablaðið í morgun og svara gagnrýni á verðlagningu í Bónus. Hér á síðunni vakti ég máls á því, að athyglisvert væri, að gagnrýnendur á Bónus kysu nafnleysi – væntanlega til að komast hjá persónulegum árásum. Í grein feðganna sannast réttmæti þessara orða, því að röksemdir þeirra snúast öðrum þræði um að lýsa einstaklinga ómerkinga til að upphefja sjálfan sig.

Þeir vega að ritstjóra Morgunblaðsins:

„Nafnlaust bréf sem Morgunblaðið birti svo ósmekklega sl. föstudag er algjörlega marklaust enda nær daglegur viðburður að ráðist sé að fyrirtækjum okkar í nafnlausum dálkum Morgunblaðsins. Frægt er þegar upp komst að ritstjóri Morgunblaðsins hefði bruggað ráð um að koma okkur feðgum fyrir kattarnef, eins og hægt var að lesa um í þeim tölvupóstum sem birtir voru í Fréttablaðinu í september 2005.“

Og framkvæmdastjóri ASÍ fær þessa sneið:


„ASÍ hefur í tvö ár neitað að viðurkenna að helsti samkeppnisaðili Bónuss hefði rangt við í verðkönnunum, þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar. Skyldi það vera vegna þess að framkvæmdastjóri ASÍ er fyrrum stjórnarformaður Kaupás, sem rekur Krónuna og fyrrum samstarfsmaður núverandi framkvæmdastjóra Kaupás, hver veit?“

Markmiðið er gamalkunngugt: Að þagga niður í þeim, sem þeir telja sér andstæða.