Sunnudagur, 18. 11. 07.
Einar Þorsteinsson, fréttamaður á hljóðvarpi ríkisins, ræddi við Atla Gíslason, þingmann vinstri/grænna, í kvöldfréttum um frumvarp, sem ég hef flutt um breytingar á almennum hegningarlögum.
Frumvarpið er samið af refsiréttarnefnd og byggist á alþjóðasamningum, annars vegar frá Sameinuðu þjóðunum og hins vegar Evrópuráðinu. Þess var að engu getið í fréttinni. Atli Gíslason taldi frumvarpið byggt á sérkennilegu hættumati og vega að mannréttindum.
Vinstri/græn sýna nokkurn tvískinnung í afstöðu sinni til alþjóðasamninga. Þau krefjast þess annars vegar að ákvæði samninganna séu lögfest hér á landi en segjast á hinn bóginn ósammála því hættumati, sem býr að baki samningunum. Þegar að þeim punkti kemur, vilja þau, oft með aðstoð gagnrýnislausra fréttamanna, láta eins og dómsmálaráðherra sé upphafsmaður þeirra ákvæða, sem þau gagnrýna.
Hættumat og öryggisráðstafanir fara almennt saman. Ísland hefur undanfarin ár tekist á hendur margar alþjóðlegar skuldbindingar, sem byggjast á sameiginlegu hættumati að baki alþjóðasamningum. Alþjóðlegar eftirlitsnefndir eru sendar á vettvang til að rannsaka, hvort farið er að samningum. Frumvarpið, sem þeir Einar og Atli ræddu í fréttunum, er meðal annars sprottið af athugasemdum slíkra eftirlitsnefnda.
Frumvörp eru gjarnan kennd við ráðherra af fréttamönnum, þegar leitað er eftir gagnrýni á þau, en eru hins vegar látin ófeðruð, þegar þau sæta engri gagnrýni.