Þriðjudagur, 06. 11. 07.
Því meira sem framsóknarmennirnir Björn Ingi Hrafnsson, Valgerður Sverrisdóttir og Pétur Gunnarsson blogga um OR/REI málið, því skýrara verður, að ætlun þeirra er að nota málið til að ná sér niðri á Sjálfstæðisflokknum.
Af fréttaskýringu Péturs Blöndals í Morgunblaðinu sunnudaginn 4. nóvember verður ráðið, að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, þáverandi borgarstjóri, trúði því, þar til Björn Ingi hafði lýst yfir samstarfi með vinstri mönnum, að Björn Ingi mundi halda áfram samstarfi við sjálfstæðismenn. Raunar fluttu fleiri borgarfulltrúum sjálfstæðismanna þennan boðskap frá Birni Inga kvöldið fyrir slit meirihlutans og nefnir Pétur þar Guðlaug Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra til sögunnar. Hvorki Vilhjálmur né Guðlaugur Þór hefðu tekið svona á málum nema af því að þeir trúðu Birni Inga og því, sem hann sagði við þá.
Í ræðu meðal framsóknarmanna í Reykjavík, eftir að hafa skipt um lið, talaði Björn Ingi á þann veg, að fyrr hefðu framsóknarmenn átt að stíga niður fæti gagnvart sjálfstæðismönnum og voru orð hans túlkuð sem sneið til Halldórs Ásgrímssonar, fyrrverandi húsbónda Björns Inga í forsætisráðuneytinu. Með þá Alfreð Þorsteinsson og Óskar Bergsson við hlið sér hreykti Björn Ingi sér af því að hafa snúið á sjálfstæðismenn - en Óskar sagði, að Alfreð hefði fengið tíma til að snúa sér aftur að stjórnmálum, eftir að hann var settur af sem formaður bygginganefndar hátæknisjúkrahúss.
Síðast þegar framsóknarmenn voru utan ríkisstjórnar, 1991 til 1995, voru þeir sem friðlausir í sölum alþingis og sama eirðarleysið hefur gripið þá nú og í vandræðum sínum telja þeir sér trú um, að Sjálfstæðisflokkurinn sé upphaf og endir vandræða þeirra.
Eftir að hann hefur gengið í lið með vinstri mönnum, vita þeir, að Björn Ingi mun ekki mynda enn nýjan meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Áhrif hans eru því engin innan félagshyggjuliðsins, eins og best sést á því, að hann hefur étið ofan í sig öll stóru orðin um nauðsyn þess að sameina REI og GGE.
Björn Ingi lítur greinilega á það sem pólitískan bjarghring sinn og einu leiðina til að draga að sér fjölmiðlaathygli að ráðast að Sjálfstæðisflokknum - nú síðast að Geir H. Haarde, formanni flokksins, í því skyni að þvæla honum inn í atburðarásina, sem leiddi til hinna örlagaríku ákvarðana 3. október með sameiningu REI og GGE. Valgerður Sverrisdóttir telur sér síðan sæma að spinna þennan ómerkilega þráð og undir leikur Pétur Gunnarsson, sem kveinkar sér undan því að vera kenndur við Framsóknarflokkinn! Það er þó skiljanlegt, þegar litið er á þennan auma málatilbúnað allan.