Miðvikudagur, 14. 11. 07.
Í morgun, á afmælisdegi mínum. fékk ég tölvubréf, þar sem sagði meðal annars:
„Sæll nafni
Á afmælisdegi mínum, 26. ágúst, setti ég upp heimasíðu á slóðinni www.björn.is. Hún olli nokkuð meira fjaðrafoki en ég bjóst við og fór svo að ég lokaði henni viku síðar. Síðan þá hef ég velt því fyrir mér hvað nú væri sniðugt að gera við lénið.
Ný hugmynd kviknaði um miðjan september, þegar ég var að lesa yfir æviágrip þín. Svo hef ég beðið, því hana þarf að framkvæma í dag, á afmælisdegi þínum.
Mig langar að gefa þér lénið björn.is í 63 ára afmælisgjöf.“
Undir þetta vinsamlega bréf ritaði Björn Swift. Ég færði honum innilegar þakkir mínar og nú hef ég eignast lénið björn.is. Ég sagði hinum gjafmilda nafna mínum, að mér hefði síður en svo mislíkað tiltæki hans í sumar, þegar ég sá, að við það fjölgaði heimsóknum á síðuna bjorn.is.
Síðdegis svaraði ég þremur fyrirspurnum á alþingi.
Hreinn Loftsson hrl. heldur áfram að smíða samsæriskenningu sína um þátt minn í lögregluaðgerðum í Baugsmiðlinum DV í morgun. Nú þykist hann hafa himin höndum tekið, af því að ég sagði frá því, að ég hefði gefið út fyrirmæli um að hefja landamæravörslu á innri Schengen-landamærum til að unnt yrði að stöðva Hell´s Engels. Spyrja má: Hver annar en dómsmálaráðherra á að gefa slík fyrirmæli? Ef enginn annar getur gert það, á ráðherrann þá ekki að vita um tilefnið?